Við fall bankanna haustið 2008 voru embættismenn óvissir um lagalega ábyrgð á innstæðum bankanna, dygði tryggingasjóðurinn ekki. Forstjóri FME og menn í viðskiptaráðuneytinu virðast hafa talið ábyrgð fyrir hendi. Bankastjórar Seðlabankans töldu hins vegar ekki um ótvíræða lagaskyldu að ræða.
Í skýrslunni segir að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, hafi sagt í skýrslutöku hjá nefndinni að þegar erlend stjórnvöld fóru að spyrjast fyrir um stöðu Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta (TIF), hefðu menn ekki verið vissir um lagalesta stöðu þess. „Hins vegar verður ráðið af svörunum að forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi litið svo á að af tilskipun ESB leiddi að ríkinu bæri að aðstoða TIF þannig að sjóðurinn gæti greitt lágmarkstrygginguna. Sama viðhorf virðist hafa verið innan viðskiptaráðuneytisins. Bankastjórar Seðlabankans töldu ekki að um svo ótvíræða skyldu eða ríkisábyrgð væri að ræða og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafði uppi sjónarmið um að fara ætti varlega í að lýsa yfir að ríkið bæri ábyrgð á lágmarkstryggingunni. Fram kom við athugun rannsóknarnefndarinnar að þrátt fyrir þessi mismunandi viðhorf var ekki leitað sérstaklega eftir lögfræðilegu mati eða ráðgjöf sérfræðinga utan ráðuneytanna um þetta atriði fyrr en eftir fall bankanna. Þá hafa ekki komið fram gögn sem sýna að umrætt atriði hafi verið sérstaklega kannað á þessum tíma af hálfu þeirra starfsmanna ráðuneytanna sem komu að málinu umfram athugun á texta innstæðutryggingatilskipunarinnar,“ segir í skýrslunni. (5. bindi, 17. kafli, bls. 308)
Rannsóknarnefndin leggur áherslu á að afstaða íslenskra stjórnvalda til skuldbindinga sem leiddi af innistæðutryggingatilskipun ESB hlaut að skipta verulegu máli um allt viðbúnaðarstarf þeirra og mat á möguleikum til að bregðast við hugsanlegum áföllum.
Einnig kemur fram í skýrslunni að í janúar 2008 kom til álita að breyta lögum um innistæðutrygginga en hætt var við það vegna þess óróa og erfiðleika sem hefðu komið upp á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.