„Rán var það og rán skal það heita,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og bætti við að samfélaginu hafi verið rænt í nafni hugmyndafræði Sjálfstæðisflokks. Græðgin hafi verið gerð að dygð, og hrokinn og heimskan fengu öll völd í íslensku samfélagi.
Steingrímur sagði hlutina hafa farið verulega úrskeiðis upp úr síðustu aldamótum. Oftrú stjórnmálamanna á hinum frjálsa markaði hafi horft á skuldirnar hrannast upp, hjá fyrirtækjum og heimilum.
Skýrslan dregur upp hrollvekjandi mynd, að mati Steingríms og dapurlegt að lesa áfellisdóminn. Hitt skipti þó meira máli, hvernig okkur tekst að komast úr þessum erfiðleikum. Hann sagði jákvæð teikn á lofti en nóg sé enn eftir.