Stjórn Seðlabanka Íslands fylgdi ekki eigin viðbragðsáætlun þegar Glitnir óskaði eftir aðstoð frá bankanum í september 2008. Reglurnar gerðu m.a. ráð fyrir að kalla ætti saman starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda, en það var aldrei gert.
Fyrir liggur að af hálfu Glitnis var ekki lagt fram neitt skriflegt erindi um þá beiðni sem formaður stjórnar Glitnis reifaði fyrst á fundi með bankastjórum
Seðlabankans í hádeginu 25. september 2008. Þá liggur ekki fyrir að slíkt skjal hafi verið lagt fram á síðari fundum stjórnenda og starfsmanna Glitnis með fulltrúum Seðlabankans að öðru leyti en því að síðar voru lagðar fram
upplýsingar um þau veð sem Glitnir bauð.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að ekki verði ályktað með öðrum hætti en að það hafi verið handvömm af hálfu stjórnenda Glitnis að hafa ekki, áður en þeir buðu fram svonefnda lánabók 561 sem veð fyrir umbeðnu láni, gert sér grein fyrir þeim takmörkunum sem voru á því að nýta umrætt lánasafn í þessu sambandi. Þótt erindi Glitnis hefði þannig sýnilega átt að vera betur undirbúið áður en það var lagt fyrir stjórnendur Seðlabankans breytir það ekki því að það var á ábyrgð stjórnenda Seðlabankans að afgreiða framkomna beiðni Glitnis í samræmi við stjórnsýslureglur.
Hinn 31. desember 2001 gáfu Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið út áfangaskýrslu vegna viðbúnaðaráætlunar þeirra. Þessi áætlun er hluti af viðbúnaðaráætlun Seðlabanka Íslands og gagnasafni bankans um hana sem nefnt er „Svarta bókin“. Einnig liggur fyrir bankastjórnarsamþykkt frá ágúst 2008, sem nefnist „Verklag við lausafjárstuðning“.
Rannsóknarnefndin telur að við afgreiðslu erindis Glitnis hafi Seðlabankinn ekki fylgt þessum reglum sem bankinn hafði þó sett sér.
„Af framangreindu er ljóst að bankastjórn Seðlabankans hafði á grundvelli
stjórnunarheimilda sinna samkvæmt lögum nr. 36/2001 sérstaklega mælt fyrir um tiltekið fyrirkomulag og málsmeðferð ef stofnuninni bærist beiðni um aðstoð vegna lausafjárvanda. Ganga verður út frá því að þetta verklag hafi haft það að markmiði að skapa, eins og kostur er, formlegan farveg innan stofnunarinnar til að tryggja faglega úrlausn og vinnslu slíkra beiðna.
Við meðferð slíkra mála þarf jafnframt að gæta þess lögmælta markmiðs Seðlabankans sem býr að baki þrautavaralánshlutverki hans samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, að varðveita traust á fjármálakerfi landsins, auk þess sem ákvarðanir stofnunarinnar í því efni kunna að vera mikilvægur liður í að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, sbr. og 4. gr. sömu laga. Fyrir liggur að stjórn Seðlabanka Íslands lét hjá líða að fylgja eigin viðbragðsáætlun, m.a. með því að kalla saman umræddan starfshóp um viðbrögð við lausafjárvanda.“
Fram kemur í skýrslunni að formaður starfshópsins, Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, var staddur erlendis þegar stjórnendur Glitnis leituðu til Seðlabankans. „Ekki hafa komið fram viðhlítandi skýringar á því af hverju hann var ekki kvaddur heim til starfa. Auk þess að eiga sæti í nefndum starfshópi hafði Tryggvi einnig tekið þátt í starfi samráðshóps þriggja ráðuneyta, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um fjármálastöðugleika og viðbúnað.“