Óli Björn Kárason segir að nærri hálfs milljarðs króna lán, sem hann fékk og gerð eru að umtalsefni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hafi öll snúist um fyrirtæki sem tengdust útgáfu Viðskiptablaðsins og fleiri fjölmiðla.
Óli Björn hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Árið 1994 hafði ég undirritaður forgöngu um að stofna Viðskiptablaðið og útgáfufélag þess Framtíðarsýn. Ég fékk nokkra félaga og fjárfesta til liðs við mig. Árið 2002 keypti félagið útgáfu Fiskifrétta og stofnaði sérstakt dótturfélag um reksturinn og 2003 yfirtók félagið einnig fréttavefinn skip.is og útgáfu á Sjómannaalmanakinu.
Eftir mikið uppbyggingarstarf og rúmum tíu árum eftir að ég stofnaði Viðskiptablaðið var ráðist í að endurfjármagna Framtíðarsýn hf og Fiskifréttir ehf. með samningi við Kaupþing. Jafnframt ákvað ég að kaupa út aðra hluthafa.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um þessa lánafyrirgreiðslu Kaupþings til fyrirtækja sem voru í fullum rekstri og með 25-30 manns í vinnu. Það vekur athygli mína að rannsóknarnefndin skuli taka undirritaðan sérstakleg út en sleppa mörgum öðrum sem stóðu í rekstri útgáfufyrirtækja. Ástæður þess eru óljósar.
Af þessu tilefni er rétt að taka eftirfarandi fram:
- Umrædd lán snérust öll um viðkomandi fyrirtæki og um var að ræða eðlileg bankaviðskipti líkt og fjölmörg önnur fyrirtæki í öllum starfsgreinum stunduðu. Hér var ekki um framvirka samninga, stöðutökur í hlutabréfum eða öðrum verðbréfum.
- Á þessum tíma var ég ekki blaðamaður eða ritstjóri. Ritstjórnir Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta voru skipaðar sjálfstæðum og hæfileikaríkum einstaklingum.
- Í byrjun árs 2007 seldi ég hluti mína í Framtíðarsýn og Fiskifréttum og þar með lauk viðskiptasambandi mínu og Kaupþings. Það eru sem sagt liðlega þrjú ár síðan og hefði rannsóknarnefndin má geta þess að ósekju og til að gæta sanngirni upplýsa að engar skuldir tengjast mér í Kaupþingi.