Skýrslan endurspeglar aðgerðarleysið

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir það ráðaleysi og ábyrgðarleysi sem hafi endurspeglast í aðgerðarleysi stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins sé mest sláandi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

„Mér sýnist við fyrstu sýn að nefndin hafi vandað til verka,“ segir Stefanía og vísar til samantektarinnar á blaðamannafundinum í morgun enda hafi hún ekki náð að lesa skýrsluna frekar en aðrir. Almennir landsmenn hafi furðað sig á aðgerðarleysi stjórnvalda allt árið 2008 og raunar lengur. Almenningur hafi gert sér grein fyrir að einhver vandi væri fyrir dyrum en upplýsingar hafi ekki verið uppi á borðum og lítið um úrræði. Afmarkaðir hópar hafi unnið með vandamálin en þau hafi ekki farið lengra. Menn hafi ekki tekið þau alvarlega.

Stefanía segir að svo virðist sem mönnum hafi staðið nær að verja einhver smákóngaveldi en hugsa um heildina. Skotgrafahernaður hafi ríkt um árabil og menn hafi enn verið í skotgröfunum enda sennilega ekki áttað sig á hvað vandinn var alvarlegur. „Það er dapur veruleiki að þeir sem áttu að gæta almannahagsmuna tóku viðvörunarljósin ekki nógu alvarlega,“ segir hún.

Að sögn Stefaníu má eflaust margt af skýrslunni læra. Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, hafi sagt á blaðamannafundinum í morgun að það hefði verið vani á Íslandi að menn bæru ekki ábyrgð á gjörðum sínum í opinberu lífi og hafi komist upp með það. Með skýrslunni væri hvatt til þess að líta á málið heildstætt og öll sú vinna, sem lægi að baki skýrslunni, og sá mikli kostnaður, sem lenti á landsmönnum vegna hrunsins, væri til lítils ef ekki væri lært til framtíðar. „Þá verða stjórnmálamenn að sýna ábyrgð og stjórnmálaflokkarnir að líta í eigin barm,“ segir hún.

Stefanía segir umbætur í stjórnkerfinu nauðsynlegar. Hins vegar séu fámennið og kunningjatengslin ákveðin hindrun á þeirri leið að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi. Almenningur geti haft mikil áhrif með sterkri kröfu um viðhorfsbreytingu, með því að krefjast þess að stjórnmálamenn beri ábyrgð og axli ábyrgð, fari frá verði þeir uppvísir af afglöpum í starfi. Gera megi því skóna að stjórnmálamenn tali nú um mikilvægi þess að sýna ábyrgð en það verði að koma í ljós hvort hugur fylgi máli. Nú reyni á innri styrk stjórnmálaflokkanna en haldi þeir óbreyttri stefnu leiði það til enn meira vantrausts á þá en hafi sýnt sig að undanförnu. Þeir sem taki að sér forystustörf eða umboðsstörf fyrir almenning verði að átta sig á því að það eru ekki bara forrréttindi heldur fylgi störfunum líka skyldur. Standi þeir ekki undir þeim beri þeim að gangast við ábyrgð og víkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert