Skýrslan sem þjóðin er búin að bíða eftir í allan vetur virðist að sumu leyti hafa komið þjóðinni á óvart. Skýrslan er ekki varfærin eins og sumir áttu von á. Í henni er flett ofan af áhættusömum rekstri bankanna og hvernig stjórnkerfið stóð lamað gagnvart vandanum.
Búið er að bíða lengi eftir skýrslu rannsóknarnefndarinnar, en hún átti upphaflega að vera tilbúin í nóvember. Fjölmiðlar og álitsgjafar hafa í vetur verið með vangaveltur um hvað kynni að vera í skýrslunni. Þeir höfðu eðlilega ekki á miklu að byggja öðru en orðum Páls Hreinssonar, formanns nefndarinnar, um þetta væru verstu tíðindi sem nokkur hefði þurft að færa þjóð sinni og Tryggva Gunnarssonar um oft hefði hann verið „verið gráti nær og mjög pirraður yfir því sem maður hefur séð.“
Talsverð gagnrýni hefur komið fram á nefndina vegna tafa á birtingu skýrslunnar. Eins hafa heyrst þær raddir að ólíklegt væri að mikið nýtt væri í skýrslunni. Aðrir hafa sagt að líklegt væri að nefndin færi varfærnum orðum um það sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Nú þegar skýrslan hefur verið birt er ljóst að hún dregur fram nýjar upplýsingar og að þar er ekki verið að fara í kringum hlutina. Nefndarmenn segja skoðun sína umbúðalaust og hika ekki við að nefna menn og fyrirtæki á nafn. Það er heldur ekki verið að hlífa stjórnmálamönnum. Gerð er grein fyrir fjárhagslegum tengslum þeirra og lántökum í bankakerfinu.
Fjallað er í skýrslunni um hvað ráðamenn og eftirlitsstofnanir vissu um vanda bankakerfisins áður en það hrundi og hvernig þeir brugðust við vandanum. Orð Vilhjálms Árnasonar prófessor á blaðamannafundinum í dag voru sláandi, en hann talaði um að menn hefðu staðið eins og lamaðir gagnvart vandanum.
Skýrslan er skrifuð á einföldu og læsilegu máli og færð eru skýr rök fyrir fullyrðingum nefndarinnar. Sumir kaflar skýrslunnar eru spennuþrungnir og má líkja við besta reifara. Nefna má í þessu sambandi kafla þar sem er verið að lýsa því þegar íslenskir ráðamenn voru að gera sér grein fyrir því að tilraunir til að verja íslenska bankakerfið haustið 2008 voru dæmdar til að mistakast.
Frá hruninu hafa fjölmiðlar mikið fjallað um vöxt bankakerfisins og hvernig stjórnendur og eigendur bankanna stóðu að málum. Kannski hafa flestir reiknað með að nefndin gæti bætt fáu nýju við þær upplýsingar. Nefndin dregur hins vegar saman ítarlegar upplýsingar um útþenslu bankanna. Lesandi fer fljótlega að spyrja sig hvað stjórnendur og eigendur bankanna voru eiginlega að hugsa.
Sigríður Benediktsdóttir, einn nefndarmanna, sagði á blaðamannafundinum, að skammtímasjónarmið hefðu ráðið ferðinni hjá stjórnendum og stærstu eigendum bankanna. Hagnaðarvonin hefði verið mikil ef til skamms tíma var litið.
Fram að þessu hefur lítið heyrst frá sumum af þeim sem gegndu lykilhlutverki í aðdraganda að hruni bankanna. Í skýrslunni koma fram skýringar Geirs H. Haade forsætisráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og fleiri sem gegndu ábyrgðarstörfum á þessum tíma. Þær varpa nýju ljósi á það sem gerðist.
Rannsóknarnefndin tók skýrslu af fjölmörgum þeirra sem komu að málum bankanna, eftirlitsstofnunum og stjórn landsins. Páll Hreinsson sagði á blaðamannafundinum í dag að af öllum þeim sem nefndin hefði rætt við hefði enginn viðurkennt að hafa gert mistök. Nú er hætt við að þjóðin spyrji, er ekki kominn tími til játninga?