Flutningur Icesave yfir í Heritable bank, dótturfélag Landsbankans í Bretlandi, var ræddur á fjölmörgum fundum á árinu 2008. Á einum þeirra 31. júlí 2008 áttu bankastjórar Landsbankans fund með bankastjórn Seðlabanka Íslands og var Davíð Oddsson seðlabankastjóri harðorður í garð bankastjóranna.
Þetta kemur fram í 18. kafla 6. bindis skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í drögum Seðlabankans að fundargerð kemur fram að einnig hafi rætt verið um innstæðutryggingar í sambandi við Icesave reikningana. Haft er eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni: „Hjálpar ekki að þið segið að Tryggingarsjóður eigi ekki pening.“
Síðar segir að Davíð Oddsson hafi tekið fram að hvergi sé hvergi sé sagt að íslenska ríkið sé skuldbundið, og að Davíð hafi verið ósammála bankastjórunum um ábyrgð Íslands. „Engin ríkisábyrgð sett nema með lögum,“ er haft eftir Davíð. Fram kemur að Halldór hafi svarað því til að þá þurfi að afla slíkrar heimildar. Því næst er haft eftir Davíð: „Eruð að safna innlánum án þess að tala við þjóðina um skuldbindinguna. Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota.“