Tólf gerðu athugasemdir við skýrsluna

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra. Brynjar Gauti

Tólf einstaklingar var gefið tækifæri til að koma að skriflegum athugasemdum við rannsóknarnefndarinnar. Þetta er gert skv. 13. gr.  laga nr. 142/2008.  Nefndin telur að þrír ráðherrar, þáverandi bankastjórar Seðlabankans og þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi.

Þeir sem fengu að gera athugasemdir eru Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, Áslaug Árnadóttir, fyrrverandi settur ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, skrifstofustjóri þar og formaður stjórnar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, Bolli Þór Bollason, áður ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og nú ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjóri og formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins.

Rannsóknarnefndin telur að Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen  og Björgvin G. Sigurðsson,hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga í aðdraganda falls íslensku bankanna með því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna.  

Þá telur nefndin einnig, að annars vegar Jónas Fr. Jónsson og hins vegar Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson  hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga  í tilteknum störfum sínum við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni. 

Svör bárust frá öllum á tímabilinu 24. til 26. febrúar 2010. Bréf rannsóknarnefndar til þessara einstaklinga og svör þeirra til nefndarinnar má sjá í heild í viðauka 11 sem birtur er í vefútgáfu skýrslunnar. Í svörum sem nefndinni bárust frá fyrrnefndum 12 einstaklingum lýstu þeir allir því viðhorfi sínu að ekki hefði verið um að ræða mistök eða vanrækslu í skilningi laga  af þeirra hálfu um þau atriði sem nefndin hefði til athugunar og lýst var í bréfum hennar til þeirra. Þá gerðu þessir einstaklingar grein fyrir afstöðu sinni til þess hverjar hefðu verið starfsskyldur þeirra vegna þeirra atriða sem fyrirspurnir nefndarinnar beindust að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert