Uppnám vegna orða um þjóðstjórn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen voru í forustu fyrir ríkisstjórninni á þessum tíma. mbl.is/RAX

„Slíkur maður þarf að víkja,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir m.a. í tölvubréfi til Geirs H. Haarde eftir að Davíð Oddsson kom á ríkisstjórnarfund 30. september 2008 og lét falla ummæli um þjóðstjórn. Upplifðu ráðherrar Samfylkingarinnar ástandið þannig að hálfgert valdarán væri í gangi.

Fjallað er í skýrslunni um viðbrögð þáverandi ráðherra við því að Davíð kom á fund ríkisstjórnarinnar og gerði henni grein fyrir stöðu mála en ríkið hafði tveimur dögum fyrr yfirtekið 75% hlut í Glitni banka. Davíð sagðist eiga það erindi að hann teldi að það væru verulegar líkur á því að allt íslenska bankakerfið yrði hrunið á næstu tíu til fimmtán dögum og síðan sagðist hann hafa rætt um að ef einhverju sinni hefði skapast þörf fyrir sérstaka þjóðstjórn þá væri það nú.

„Og þá skyndilega varð þetta aðalatriði fundarins, mér til mikillar undrunar, tveir ráðherrar þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir [menntamálaráðherra] og Össur Skarphéðinsson [iðnaðarráðherra] urðu hin reiðustu og sögðu að formaður bankastjórnarinnar hefði ekkert leyfi til þess að koma og gefa fyrirmæli um að mynda þjóðstjórn, þannig að ég bað nú um orðið aftur og sagði að ég hefði ekki verið að gefa nein fyrirmæli um það [...]" er haft eftir Davíð í skýrslunni.

Orð betur ósögð

Haft er eftir Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að þessi orð Davíðs hefðu kannski verið betur ósögð en þó ekki sögð í þeim tilgangi
að spilla fyrir með neinum hætti. 

„En ákveðnir ráðherrar ákváðu að taka þetta mjög óstinnt upp og voru að pæla í þessu á fundinum og svo síðar meir og litu á þetta sem vantraust á núverandi ríkisstjórn sem það náttúrulega var ekki. Þetta var bara almenn athugasemd um það að nú yrðu allir að standa saman, ég tók það nú þannig. Og reyndar var þetta eitt af því sem við formaður Vinstri grænna ræddum kvöldið áður og var auðvitað inni í myndinni. En því miður þá varð það, að þetta skyldi hrökkva út úr honum við þessar aðstæður, til þess að þetta varð þá þegar algjörlega óraunhæft. Samfylkingin stökk bara upp á afturfæturna og setti út neglurnar gagnvart þessari hugmynd vegna þess að þeir töldu að hún væri komin frá honum. Þannig var nú andúðin á honum og því sem frá honum kom," er haft eftir Geir. 

Kom þarna og  „dóserar"

Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson ríkisstjórnarfundinum m.a. með eftirfarandi orðum:

„En þarna var hann [Davíð Oddsson] ofsalega reyttur og tættur og eins og ég sagði frá því, eins og blöndu af einhverju taugalosti og sturlun. Hann kom þarna og „dóserar“. Og hann sagði að þetta væri mesti vandi sem Ísland hefði nokkru sinni staðið frammi fyrir, lánalínur væru að hækka, Fitch væri að lækka matið á Landsbankanum og það væri ekkert að gera annað heldur en að sameina alla íslensku bankana. Og kom þessi fræga setning: „Ef einhvern tíma er þörf fyrir þjóðstjórn á Íslandi þá er það núna.““

Össur sagði einnig að Davíð hefði lagt til að „innlendar eignir og skuldir og útlán“ yrðu teknar og settar „í íslenska sérbanka, úr öllum bönkunum, setja inn íslenskt hlutafé, skilja allt eftir til þess að það tapist“. Síðan hefði Davíð sagt að viðgengist hefði „glæframennska og glæpamennska af versta tagi, sem hefði verið klappað fyrir“. Því næst hefði Davíð sagt: „Og við þyrftum að vera viðbúin að gera þetta núna strax í dag. Verið að loka lánalínum á Ísland, núna og á ríkið í dag. Hann var bara í losti, kallinn. Og KB [Kaupþing banki hf.] hefði sagt að þeir væru, það væri tryggt út næsta ár en innstæður á tölvureikningum væru að rjúka út. Og hann kom með einhverja tillögu, Seðlabankinn gerir sínar ráðstafanir og hann talaði um þessa neyðarnefnd [...].“

Hálfgert valdarán

Björgvin G. Sigurðsson lýsti fundinum með eftirfarandi hætti við skýrslutöku:

„Og svo allt í einu stormar Davíð inn á fundinn, í miklu uppnámi og bara alveg leit mjög illa út og [...] var greinilega mikið niðri fyrir og þá segir hann að hann óttist það að íslenska fjármálakerfið sé bara allt að fara og það verði bara núna á eftir að setja niður vinnu um að hirða alla bankana af öllum eigendum, bara strax, íslensku starfsemina og skera á útrásarvíkingana, sem hafa skuldsett þjóðina þannig að landráðum líkist, sagði  hann orðrétt.“

Eftir að ríkisstjórnarfundinum lauk hafði Björgvin samband við Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis, og bað hana að halda samstundis í Seðlabankann. Við skýrslutöku sagði Björgvin:

„Þeir voru að taka til sín sem sagt alla stjórnun á þessu máli, Seðlabankinn, og  menn upplifðu bara gríðarlega valdabaráttu í gangi í landinu þarna, það væri bara hálfgerð valdaránstilraun.“ Björgvin segist því að hluta til hafa sent Jónínu til „að vera á vettvangi til að fylgjast með hvað þeir væru eiginlega að gera, það vissi það enginn“.

Út að kaupa mjólk

Árni M. Mathiesen lýsti fundinum við skýrslutöku með eftirfarandi orðum: „Ja, hann var náttúrulega bara alveg skelfilegur og það lá við að maður hringdi heim til þess bara að biðja konuna að fara út og kaupa mjólk, svo það yrði örugglega til mjólk í ísskápnum, það var nú þannig lýsingarnar sem voru á því hvaða ástand mundi skapast.“

Árni segir að umræðan um þjóðstjórn hafi hellt olíu á eld og segir hann þetta hafa leitt til mikils vantrausts á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Afleiðingarnar hafi verið þær að frumkvæði í vinnu stjórnvalda hafi flust frá Seðlabankanum yfir til Fjármálaeftirlitsins.

Össur Skarphéðinsson lýsti því við skýrslutöku að sama dag hefði hann, eftir að hafa ráðfært sig við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttu rætt við Geir H. Haarde og sagt: „[...] ég teldi þetta allt saman ótækt og sagði honum þá í fyrsta skipti að ég teldi að það væri ekki hægt að sigla í gegnum svona, með hann [Davíð Oddsson] þarna sem kæmi bara og „dikteraði“ til ríkisstjórnar, því að hann var náttúrulega líka í þessari sturlun, var hrokafullur við ríkisstjórnina, tók orðið af Geir og svona. Þetta var bara gæi sem kom og hann vissi hvernig átti að gera þetta, væri allt í steik en það ætti að gera það svona. Það vantaði bara að segja: „Svo á ég að stýra þessu.“ Fannst mér."

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sendi Geir H. Haarde tölvubréf að kvöldi 1. október 2008 þar sem hún lýsti þeirri afstöðu sinni að það gengi ekki að embættismaður gengi inn á ríkisstjórnarfund og segði að önnur stjórn ætti að taka við og bætti við: „Slíkur maður þarf að víkja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert