Útlán Landsbankans til eigenda veruleg

Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson.
Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson. Kristinn Ingvarsson

Útlán Landsbankans til eigenda og tengdra aðila voru veruleg, að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Samson var stærsti hluthafi bankans frá einkavæðingu og eftir að Magnús Þorsteinsson seldi hlut sinn í félaginu áttu feðgarnir Björgóflur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson það til helminga, þó að miklu leyti í gegnum erlend eignarhaldsfélög sín.

Megnið af útlánum móðurfélags Landsbankans til Björgólfs Guðmundssonar og tengdra aðila voru til Eimskipafélagsins eða aðila sem tengdust því, en Björgólfur átti um þriðjung í Eimskipafélaginu.  Lánin voru um 850 milljónir evra allt frá miðju ári 2007. Skuldbindingar Björgólfs vegna Fjárfestingarfélagsins Grettis jukust verulega á árinu 2007 og í ágúst 2008 fluttust þær svo yfir í Gretti ehf., en samhliða þeim flutningi veitti Björgólfur sjálfskuldarábyrgð og handveð í hlutabréfum í Icelandic Group.

Rétt fyrir fall Landsbankans lagði síðan Björgólfur Thor fram ábyrgð Givenshire Equities S.a.r.l. félagsins, sem átti um helmingshlut í Samson, fyrir skuldbindingum Björgólfs vegna sjálfskuldarábyrgðarinnar á skuldbindingum Grettis. Þetta var gert samhliða 153 milljóna evra lánafyrirgreiðslunni sem Björgólfur Thor fékk hjá Landsbankanum í Lúxemborg rétt fyrir fall bankans.

Björgólfur Thor var einnig með þó nokkur lán hjá móðurfélagi Landsbankans, en jafnframt langstærsti skuldari bankans í Lúxemborg. Heildarskuldbindingar Björgólfs Thors og tengdra aðila við Landsbankann námu tæpum einum milljarði evra í október 2008. Stór hluti lánveitinganna var vegna lyfjafyrirtækisins Actavis, ýmist beint eða til félaga sem áttu hlut í Actavis. Landsbankinn og Straumur-Burðarás veittu víkjandi lán vegna yfirtöku fjárfesta á Actavis um mitt ár 2007, en Björgólfur Thor átti rúmlega 80% í félaginu sem keypti Actavis. Lánin voru mjög áhættusöm og báru vexti í samræmi við það, að því er segir í skýrslunni.

Landsbankinn veitti jafnframt 253 milljóna evra lán til BeeTeeBee Ltd. árið 2008, félags í eigu Björgólfs Thors, og rann það sem víkjandi lán inn í yfirtökustrúktúr Actavis og uppfyllti þannig kröfu Deutsche Bank um aukið eigið fé í félaginu. Lánið var veitt 30. september en þá var Seðlabanki Íslands búinn að gera tilboð í 75% hlut Glitnis og lausafjárörðugleikar Landsbankans, einkum í erlendri mynt, fóru ört vaxandi.

Björgólfur Thor var einnig stærsti hluthafi Straums-Burðaráss og stjórnarformaður þess banka. Feðgarnir voru hvor um sig, ásamt tengdum aðilum, með stærstu skuldurum bankans og kemur fram í skýrslunni að saman mynduðu þeir stærsta lántakendahóp hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert