„Ég er mjög ánægður með að þessi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er loks komin,“ sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld. Geir minnti á að það var að hans frumkvæði sem ákveðið var að ráðast í þetta verk.
„Það er ekki þar með sagt að allir sem fara yfir þessa skýrslu séu sammála því sem þar stendur,“ sagði Geir. Hann kveðst hafa svarað nefndinni þegar honum var gefið færi á andmælum, þeim atriðum sem lúta að hugsanlegri vanrækslu af hans hálfu.
„Ég tel ekki að það sé hægt að fella þá sök á mig sem nefndin gerir. Ég færi fyrir því rök í bréfi mínu til nefndarinnar. En ég deili vitanlega ekki við nefndina í hennar niðurstöðu þótt ég hafi aðra skoðun en hún í þeim atriðum,“ sagði Geir.
Hann sagði að á árinu 2008 hefðu menn reynt að gera hið ómögulega, að bjarga bankakerfinu. „Menn vissu það bara ekki fyrr en eftir á að það var ómögulegt og því miður tókst það ekki.“
Geir sagði að eins og kæmi fram í skýrslu nefndarinnar hefðu sennilega verið síðustu forvöð að bjarga bankakerfinu á árinu 2006 en það hefði verið orðið of seint árið 2008.
„Menn gerðu sér ekki grein fyrir því hve bankarnir stóðu á miklum brauðfótum og hvers konar starfsemi þar átti sér stað sem nú er að koma fram í dagsljósið í æ ríkara mæli,“ segir Geir.