„Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli,“ segir m.a. í siðferðiskafla rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið, þ.e. um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna árið 2008, 8. bindið.
Þar er fjallað sérstaklega um hlut Ólafs Ragnar Grímssonar forseta og dregnir fram af skýrsluhöfundum nokkrir lærdómar, einkum þeir að skýra þurfi hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni, setja reglur um hlutverk og verkefni forsetans og samskipti hans við önnur ríki.
Einnig telja skýrsluhöfundar æskilegt að forsetaembættið setji sér siðareglur, þar sem m.a. yrðu ákvæði um það með hvaða hætti sé eðlilegt að forsetinn veiti viðskiptalífinu stuðning.
Eru í skýrslunni rakin nokkur afskipti hans af íslensku viðskiptalífi, allt frá árinu 2000, greint frá ræðum hans á erlendum sem innlendum vettvangi, bréfum til erlendra ráðamanna og heimsóknum þar sem hann tók að sér að kynna einstök fyrirtæki. Vitnað er mikið í bók Guðjóns Friðrikssonar um forsetann sem kom út árið 2008.
Í skýrslunni eru einnig talin upp nokkur boð á Bessastöðum sem forsetinn hélt fyrir athafnamenn í viðskiptalífinu. Þá er bent á að Ólafur Ragnar hafi verið valinn maður ársins 2008 af tímaritinu Mannlífi, einkum vegna framgöngu hans í þágu útrásarinnar.
Sjá nánar um gagnrýni nefndarinnar á þátt forseta Íslands í Morgunblaðinu í dag.