Fékk heimild til að flytja hlutabréf í eignarhaldsfélag

Kristján Arason, einn af stjórnendum Kaupþings, fékk sérstaka heimild frá Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra, og Guðnýju Örnu Sveinsdóttir, fjármálastjóra, til þess að færa hlutabréf sín í bankanum og lántökur í bankanum vegna kaupanna í sérstakt eignarhaldsfélag í febrúar 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og einnig, að reglur Kaupþings hafi ekki heimilað starfsmönnum að setja hlutabréfin í eignarhaldsfélög.

Fram kemur í umfjöllun nefndarinnar að þrír aðrir starfsmenn hafi fengið sömu heimild í október sama ár en þá hefur hún verið veitt eftir að stjórn bankans ákvað fella niður allar persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána til hlutabréfakaup. Það gerðist á stjórnarfundi 25. september 2008, sama dag og forráðamenn Glitnis leituðu eftir fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika við að standa í skilum á komandi gjalddaga.

Kristján, sem er eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi menntamálaráðherra, fékk því heimildina í sama mánuði og Kaupþing kynnti afkomu fjórða ársfjórðung ársins 2007. Bankinn tilkynnti þá um tæplega 10 milljarða hagnað fyrir fjórðunginn og var það umfram væntingar greiningardeilda íslensku bankanna.

Haft var eftir Hreiðari Má í tengslum við kynningu á afkomunni að lausafjárstaða bankans og hann hefði laust fé til þess að mæta afborgunum næstu 440 daga.

Fram kemur einnig í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, að lán sem tengdust Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hafi fyrir hrun bankanna numið tæplega 1,7 milljörðum króna og verið að mestu leyti á vegum eiginmanns hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert