Eftir Jón Pétur Jónsson
Rannsóknarnefnd Alþingis segir í skýrslu sinni um orsakir og aðdraganda hrunsins að ráðherrar og embættismenn hafi gerst sekir um vanrækslu. Í kjölfarið hefur verið rætt um að kalla saman landsdóm, sem hefur aldrei gerst frá því hann var stofnaður fyrir 104 árum. Alls sitja 15 í landsdómi.
Landsdómur fer með og dæmir mál þau, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.
Í lögum um landsdóm segir að dóminn skuli skipa þeir fimm dómarar við Hæstarétt sem hafa átt þar lengst sæti. Þetta eru þau Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Einnig dómstjórinn í Reykjavík, sem er Helgi I. Jónsson, og prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Björg Thorarensen.
Þá eru átta menn kosnir af sameinuðu Alþingi með hlutfallskosningu til 6 ára í senn. Síðast var kosið 11. maí 2005. Þeir eru:
Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, Brynhildur Flóvenz lögfræðingur.
Þar sem Markús Sigurbjörnsson og Björg Thorarensen eru hjón er ljóst að annaðhvort þeirra verður að víkja sæti úr Landsdómi, en í lögum um dóminn segir eftirfarandi:
„Skyldir menn eða mægðir að feðgatali eða niðja eða hjón, kjörforeldri og kjörbarn, fósturforeldri og fósturbarn eða skyldir eða mægðir að fyrsta eða öðrum lið til hliðar mega ekki sitja samtímis í landsdómi.“