Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fyrrv. fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. viðskiptaráðherra, vísa því allir á bug í svörum til rannsóknarnefndarinnar að um vanrækslu af þeirra hálfu hafi verið að ræða.
„Ég tel ekki að orsaka bankahrunsins sé að leita í því sem gerðist á vettvangi íslenskra stjórnvalda síðustu mánuðina fyrir hrunið heldur fyrst og fremst í ákvörðunum bankanna sjálfra mánuðina og misserin á undan og þeirri atburðarás sem þær leiddu til. En að sjálfsögðu höfðu alþjóðlegar markaðsaðstæður mikil áhrif,“ segir Geir H. Haarde í bréfi sínu 24. febrúar sl.
Rannsóknarnefndin fjallar ítarlega um þennan fund þar sem Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, dró upp mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna, en hann var þá nýkominn af fundi í London.
Í svari Geirs kemur m.a. fram að af hans hálfu hafi verið út frá því gengið að frásögn Davíðs yrði sett í búning minnisblaðs. Svo varð þó ekki. Geir bendir á að á þessum fundi hafi komið fram ýmis sjónarmið ónafngreindra bankamanna og menn ekki verið að öllu leyti sammála. Eðlilegt hefði verið af hálfu bankans að fylgja þessari frásögn eftir með hugmyndum eða tillögum um viðbrögð við þeirri stöðu, sem lýst var sem skoðun hinna erlendu bankamanna. En það var ekki gert.
Hann minnir einnig á að í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, frá 8. maí 2008, hafi bankinn sagt að fjármálakerfið væri í meginatriðum traust.
Í bréfi Geirs er einnig að finna frásögn af löngum fundi sem hann, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra og Árni M. Mathiesen áttu 7. ágúst 2008 um efnahagsmál í ráðherrabústaðnum „með þremur þrautreyndum hagfræðingum sem allir þekktu mjög vel til íslenskra efnahagsmála“. Þótt á þeim fundi hafi vissulega komið fram áhyggjur af fjármálakerfinu og stöðu bankanna hafi ekkert komið fram um að bankahrun væri yfirvofandi.
„Þessir sérfræðingar höfðu m.ö.o. ekki frekar en aðrir upplýsingar um að innviðir bankanna væru fúnari en upplýst hafði verið né gátu þeir spáð fyrir um fárviðrið á alþjóðlegum mörkuðum um haustið.“
„Hvað mig varðar gerði ég mínum samflokksmönnum ýmist grein fyrir málum í samtölum við einstaka ráðherra eða á sameiginlegum fundum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem haldnir voru vikulega. Ég veit ekki annað en ráðherrar Samfylkingarinnar hafi einnig átt með sér reglulega fundi. Hafði ég enga ástæðu til að draga í efa að upplýsingamiðlun milli utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra væri með algerlega eðlilegum hætti og vissi ég að viðskiptaráðherra fylgdist mjög vel með á sínu verkefnasviði,“ segir Geir ennfremur.
Varðandi fund ráðherra með bankastjórn Seðlabankans 7. febrúar segir Árni að hann hafi í sjálfu sér ekki efast um að upplýsingar sem komu þar fram væru réttar. „Hins vegar verður að horfa til þess að þar var á ferð munnleg endursögn formanns bankastjórnar Seðlabankans á viðhorfum hinna ýmsu viðskiptabanka Bretlands og lánshæfismatsfyrirtækja til stöðu Íslands. Var því ekki hægt að staðreyna þessar upplýsingar, t.d. hvort og þá að hvaða marki þessir aðilar voru sammála innbyrðis.“
Í svörum sínum til rannsóknarnefndarinnar hafnar hann því eindregið að hafa sýnt af sér vanrækslu eða að honum hafi orðið á mistök í embætti ráðherra.
Björgvin segir rannsóknarnefndina ekki afmarka hvaða skyldur hafi hvílt á honum við framkvæmd og eftirlit með lögum og reglum um fjármálastarfsemi. Bréf nefndarinnar svari ekki þessum grundvallarspurningum. Hann segir það ekki hafa verið innan verkahrings viðskiptaráðuneytisins, heldur lagaskyldu annarra stofnana, að krefjast þess að viðskiptabankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn. Þá bendir hann á að forsætisráðherra hafi kosið að hafa samráð við utanríkisráðherra öðrum fremur um framvindu efnahagsmála. Um þetta hafi verið fullt samkomulag og í samræmi við þá hefð sem skapast hafi.