Höfðu ekki tengsl inn í breska fjármálaeftirlitið

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, utan …
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, utan við Ráðherrabústaðinn í október 2008. mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórnendur Kaupþings höfðu engin tengsl inn í breska fjármálaeftirlitið (FSA) og þegar Glitnir og Landsbankinn voru að falla í byrjun október 2008 skipti þessi skortur á tengslum máli varðandi örlög Kaupþings.

„Þrátt fyrir veisluhöld og samskipti við ríka og fræga fólkið í London hafði Ármann [Þorvaldsson, forstjóri Kaupthing Siger & Friedlander] hvorki náð heppilegum tengslum inn í breska stjórnkerfið né hafði hann nógu djúpan skilning á því,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Ármann óskaði í byrjun október 2008 eftir fundi með háttsettu fólki innan FSA, en illa gekk að fá slíkan fund. Sigurður Einarsson,stjórnarformaður Kaupþings, telur hugsanlegt að Bretar hafi verið búnir að ákveða fyrir löngu að Kaupþing fengi ekki að lifa. Þeir hafi hugsanlega verið orðnir þreyttir á samskiptum við íslensk stjórnvöld út af Icesave reikningum Landsbankans og hreinlega verið búnir að gefast upp.

Það kom íslensku bankastjórnunum á óvart hversu lykilaðilar í breska stjórnkerfinu voru samhæfðir og samstilltir í aðgerðum sínum. „Þeir kunnu listina að gera árásir og verjast - en Íslendingar voru sem lamaðir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert