„Hvað merkja orðin glögg mynd?" spurði Stefán Svavarsson, prófessor, þegar hann gaf skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis í vetur. Lög og góðar reikningsskilavenjur kveða á um að ársreikningur gefi glögga mynd af rekstri fyrirtækis og þeim eignum og skuldum sem eru til staðar. Endurskoðendur árituðu milliuppgjör allra bankanna um mitt ár 2008 og staðfestu að þau gæfu glögga mynd af fjárhagsstöðu og afkomu þeirra.
„Er orðið glögg mynd sjálfstætt hugtak eða verður að spyrða það saman við eitthvert regluverk, þannig að endurskoðendur hafi almennt hugsað þetta mál þannig, þ.e. að þeir beri ekki ábyrgð á því þó að lögin og reglurnar dragi fram glögga mynd?" spurði Stefán áfram.„Ef reglurnar gera það ekki, að þá segi sko: Glögg mynd í samræmi við – og þið þekkið orðalagið – glögg mynd í samræmi við regluverkið sjálft. Og þetta þýðir að, að jafnvel þótt í einhverjum svona venjulegum skilningi þessara orða ekki birtist þarna glögg mynd, þá segja menn: Það er ekki mitt mál vegna þess að ég er að staðfesta að það var farið eftir reglunum og þetta er glögg mynd í samræmi við reglurnar sjálfar.“
Rannsóknarnefndin segir í skýrslunni, að endurskoðendur hafi ekki sinnt skyldum sínum nægilega vel við endurskoðun reikningsskila fjármálafyrirtækjanna árið 2007 og við hálfársuppgjör 2008. Einkum eigi það við um rannsókn þeirra og mat á virði útlána til stærstu viðskiptavina fyrirtækjanna, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu fjármálafyrirtækja til kaupa á hlutabréfum í sjálfum sér. Í þessu sambandi verður að árétta að aðstæður höfðu á þessum tíma þróast með þeim hætti að sérstakt tilefni var til þess að gefa þessum atriðum gaum.
Í skýrslu nefndarinnar er haft eftir Sigurði Jónssyni, löggiltum endurskoðanda hjá KPMG, endurskoðunarfyrirtæki Kaupþings, að þegar stjórnendur bankanna séu að gera upp og KPMG að endurskoða á miðju ári 2008 þá sé ákveðin staða uppi í samfélaginu í víðasta skilningi, bæði hérlendis og erlendis. „(Þ)að er á þeim forsendum, sem þá liggja fyrir, sem við endurskoðum og væntanlega sjórnendur eru að gera upp. Það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga, að okkar reglur beinlínis banna okkur – banna okkur – að taka tillit til atburða, sem ekki hafa átt sér stað, þ.e.a.s. vera í spekúlatífum vangaveltum um hvað kunni að gerast síðar.“
Stefán spyr áfram: „En trúðu menn því virkilega í árslok 2007 og á miðju ári 2008 þegar menn skrifuðu undir reikningana, að þeir gæfu glögga mynd af rekstrar- og efnahag félaganna, að þeir væru að segja satt? Nema þeir hafi algjörlega orðið viðskila við það, sem var að gerast í bönkunum sjálfum, því í bönkunum sjálfum frá ársbyrjun 2007 og raunar frá árslokum 2006, þá eru menn komnir í þann anda að endurfjármagna sig og í endalausum vandræðum með það.“