Náðu ekki að rækja hlutverk sitt

Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja hlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins, þ.e. að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi yfir hættumerkjum.

Þetta er niðurstaða vinnuhóps um siðferði og starfshætti í tengslum við fall bankanna en hann vann lögum samkvæmt náið með rannsóknarnefnd Alþingis.

Hópurinn bendir á, að flestir miðlarnir hafi verið í eigu sömu aðila og áttu helstu fjármálafyrirtækin og þótt ekki hafi verið sýnt fram á bein áhrif eigenda á fréttaflutning, þá virðist sjálfsritskoðun vera útbreidd í íslensku samfélagi, meðal annars vegna þess hve atvinnutækifæri fjölmiðlamanna eru takmörkuð. „Ritstjórar og blaðamenn kunna þá að forðast umfjöllun um mál sem gætu skaðað viðskiptahagsmuni fjölmiðilsins eða haft áhrif á þeirra eigin starfsframa,“ segir í skýrslunni.

Þar er haft eftir Jóni Kaldal, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins: „[B]laðamenn eiga að vera vanir því að það sé reynt að beita þá þrýstingi bæði frá viðskiptasamsteypum, stjórnmálaflokkum, mögulega innanhúss, og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, en það er hins vegar óeðlilegt ef þeir láta undan þessum þrýstingi. Þá er eitthvað óheilbrigt farið af stað.“

Vinnuhópur um siðferði hefur undir höndum gögn sem sýna ýmiss konar afskipti eigenda fjölmiðla af fréttum og annarri dagskrá. Fjölmiðlamenn veigra sér, að sögn hópsins, hins vegar við að fara út í einstök mál vegna hættu á starfsmissi eða meiðyrðamáli. Hópurinn telur fulla ástæðu til að rannsaka sérstaklega samskipti eigenda fjölmiðla og fjölmiðlamanna, en slík rannsókn féll ekki innan þess ramma sem rannsókn hópsins var settur.

Í skýrslunni er talað um að fjölmiðlar stjórni líka samfélagsumræðunni með því að setja málefnin á dagskrá eða ákveða að ræða þau ekki og „í aðdraganda bankahrunsins áttu þeir stóran hlut í því hve umræða um fjármálafyrirtækin var bæði umfangsmikil og lofsamleg“.

Sex- til sjöfalt fleiri jákvæðar fréttir

Vinnuhópurinn fékk Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands til að leggja mat á umfjöllun fjölmiðla um íslenskt viðskiptalíf og fjármálafyrirtæki á tímabilinu janúar 2006 til október 2008 og var niðurstaðan sú að jákvæðar fréttir og greinar reyndust vera sex- til sjöfalt fleiri en hinar neikvæðu.

Ekki mæltust neikvæðar fréttir vel fyrir. Í skýrslu vinnuhópsins er vitnað til viðbragða við umfjöllun Morgunblaðsins um nýja skýrslu Merrill Lynch um íslenska bankakerfið 8. mars 2006 undir fyrirsögninni „Íslensku bankarnir, ekki allt sem sýnist.“ Þar kom fram óvissa um það hvort mjúk lending yrði í íslenska hagkerfinu. „Bæði ráðamönnum og bankamönnum gramdist mjög að íslenskur fjölmiðill tæki upp þessa gagnrýni,“ segir í skýrslu vinnuhópsins.

Vitnað er til orða Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, í þessu sambandi en hann hefur eftir Birnu Einarsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs Íslandsbanka og núverandi bankastjóra: „Þið eigið ekki að vera að gagnrýna bankana og gera athugasemdir við bankana, þið eigið að standa með okkur.“

Það er mat hópsins að jarðvegur fyrir gagnrýni á íslenska fjármálakerfið hafi verið hrjóstrugur í aðdraganda bankahrunsins. Vísar hann í því sambandi til greina Ragnars Önundarsonar viðskiptafræðings í Morgunblaðinu á árunum 2005-08, þar sem hann varaði ítrekað við „afskiptaleysi“ í hagstjórn og „glannaskap“ reynslulítilla bankamanna. Ragnar fékk engin viðbrögð fyrr en eftir að kreppan skall á.

Það er álit vinnuhópsins að fjölmiðlar hafi verið vanbúnir gagnvart þeim miklu breytingum sem urðu á samfélaginu með örum vexti og auknu sjálfræði fjármálageirans sem hafði í för með sér annars konar og vinsamlegri afskipti af fjölmiðlum en fjölmiðlamenn voru vanir. „Mörkin milli frétta, auglýsinga og skemmtiefnis riðluðust og sumir viðskiptafréttamenn vinguðust úr hófi fram við þá sem þeim var ætlað að fjalla um. Slík óbein áhrif vega eflaust þyngra en bein afskipti einstakra manna af umfjöllun fjölmiðla.“

Haft er eftir Örnu Schram, fréttastjóra Viðskiptablaðsins, í skýrslunni að hún hafi veitt því athygli að fréttamenn beiti almennt meiri aðgangshörku við stjórnmálamenn en gagnvart aðilum í viðskiptalífinu.

Upplýsingafulltrúar skekktu myndina

Einnig kemur fram að upplýsingafulltrúar í fullu starfi hjá fjármálafyrirtækjum hafi gert sitt til að skekkja myndina og embættismenn í stjórnkerfinu og margir sérfræðingar í háskólum hafi verið ófúsir til að tjá sig. Þetta gerði það að verkum að fjölmiðlar áttu ekki greiðan aðgang að upplýsingum og höfðu ekki nægilega traust tengslanet í samfélaginu.

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í skýrslunni frá blaðamanni sem unnið hafði í viðskiptafréttum og skipti yfir í aðra deild þar sem hann tók viðtöl við fólk um áhugamál sín og þvíumlíkt: „Og hann sagði: Mikill óskaplegur munur að hafa á tilfinningunni allan daginn að viðmælendur séu að segja manni satt.“

Erfiðleikarnir sem nú steðja að íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins hafa haft tvíbent áhrif á fjölmiðla, að áliti vinnuhópsins. Annars vegar hefur samfélagið opnast og fjölmiðlar eiga auðveldara en áður með að afla upplýsinga; á hinn bóginn bitna fjárhagslegar þrengingar illa á fjölmiðlum. „Sumir stórleikaranna á sviðinu í aðdraganda bankahrunsins eru áhrifamenn í fjölmiðlaheiminum,“ segir í skýrslu hópsins. „Fjölmiðlasamsteypan 365 er enn að stórum hluta í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem átti stærstan hlut í Glitni. Ráðning Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra, sem ritstjóra Morgunblaðsins og uppsögn margra reyndra blaðamanna þar sýnir hvernig eigendur fjölmiðla geta ráðskast með fjölmiðla ef þeim sýnist svo. Markmið þeirra virðist vera að ástunda skoðanafjölmiðlun og verja sérhagsmuni fremur en að tryggja faglega og sanngjarna umfjöllun.“

Lærdómar vinnuhópsins

*Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.

*Styrkja þarf sjálfstæði ritstjórna og setja eignarhaldi einkaaðila á fjölmiðlum hófleg mörk.

*Efla þarf menntun blaða- og fréttamanna og skapa þeim skilyrði til sérhæfingar í einstökum málaflokkum.

*Koma þarf á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni.

Lán til fjölmiðlamanna

563 Björn Ingi Hrafnsson. Lánin öll veit af Kaupþingi banka hf.

478 Óli Björn Kárason (ÓB-fjárfestingar ehf). Lánin öll frá Kaupþingi banka.

154 Styrmir Gunnarsson hafði lán í öllum stóru bönkunum þremur á tímabilinu.

Fjölmiðlamenn sem höfðu, ásamt maka og félögum þeirra, heildarlánastöðu yfir 100 m. kr. einhvern tíma frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna. Talan er í milljónum króna og gefur til kynna hámarksstöðu lánanna.

Brynjar Gauti
Ríkisútvarpið
Ríkisútvarpið mbl.is/Árni Sæberg
Heiddi /Heiðar Kristjánsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert