Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, að fjölmörg dæmi séu um það hvernig reynt var að blekkja einstaklinga til viðskipta við íslensku bankana. Þegar fólk hafi síðan óskað eftir upplýsingum um viðskiptin síðar, til dæmis að heyra upptökur af samtölum við þjónustufulltrúa, hafi það fengið þau svör að upptökur séu ekki til.
Í slíkum tilfellum geti verið að sími í þjónustuveri hafi ekki verið með upptökutæki, upptökum hafi verið eytt eða að þau hafi farið fram í farsímum starfsmanna.
Nefndin, sem fjallaði um siðferðileg álitamál í tengslum við bankahrunið, segir að margar sögur hafi verið sagðar um viðskipti einstaklinga við bankana þar sem fólk segi farir sínar ekki sléttar. Rannsóknarnefnd Alþingis bárust ekki margar ábendingar beint en hafði spurnir af fleirum. Einstaklingar eigi oft erfitt með að koma fram og ræða svo persónuleg mál. Í sumum tilfellum er um að ræða fullorðið fólk sem virðist hafa verið blekkt og svikið og finnst það hafa verið niðurlægt á ævikvöldinu. Í einu vetfangi renni upp fyrir fólki að stofnanir sem það hélt að það gæti treyst í samfélaginu reyndust ekki traustsins verðar.
Rakin er frásögn af viðskiptum aldraðs kaupsýslumanns sem var í einkabankaþjónustu hjá Kaupþingi. Frásögnin kemur frá ættingjum hans. Í byrjun september 2007, en hann var þá á 88. aldursári, tjáði hann fjölskyldu sinni að hann hefði gert alvarleg mistök í fjárfestingum og þegar hefði orðið talsvert fjárhagslegt tjón.
Þann 19. júlí sama ár hafði hann gert 5 afleiðusamninga sem fólust í því að tekin voru körfulán í erlendum gjaldmiðlum og keypt hlutabréf fyrir andvirðið og var 75% af lánsfénu varið til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka og Exista en 25% í öðrum bönkum.
Fulltrúi mannsins, sem hann taldi velgjörðamann sinn í bankanum, var í fríi á þessum tíma og málið í höndum staðgengils. Þegar fulltrúinn kom heim í byrjun ágúst fór hann með samningana á heimili mannsins til undirritunar, en þá þegar hafði orðið talsvert tap á fjárfestingunni vegna falls á hlutabréfamörkuðum og gengislækkunar krónunnar. Í byrjun árs 2008 var allsherjarveð tekið í eignasafni mannsins.
Eftir að fjölskylda mannsins fékk upplýsingar um málið óskaði hún eftir því að gjörningurinn væri afturkallaður þar sem hér væri um að ræða fullorðinn mann sem hvorki hafði þekkingu á slíkum gjörningum né gerði sér grein fyrir afleiðingum þeirra. Á þessu tímabili glímdi maðurinn þar að auki við alvarlegan heilsubrest sem fulltrúanum í bankanum var vel kunnugt um.
Þá hafði sonur mannsins lagt áherslu á að ekki yrði staðið í áhættusömum viðskiptum fyrir hans hönd. Hafði hann meðal annars farið fram á að eignasafni föður hans yrði komið í ríkisbréf.
Við eftirgrennslan fjölskyldunnar reyndist ekki unnt að fá hljóðrit af öllum samtölum við bankann, heldur einungis tveimur, og gaf bankinn þá skýringu að hringt hefði verið úr GSM-símum.
„Fjölskyldan hitti nokkra stjórnendur bankans á fundi í febrúar 2008 og þá var henni tjáð af einum stjórnandanum að lítið þýddi fyrir hana að fara í málarekstur „þar sem það væri fyrirfram tapað sem hinir tóku undir með háðsglotti“, eins og segir í frásögn hennar," segir í skýrslunni.
Málið tók mjög á aldraða manninn sem lést stuttu síðar. Í skýrslunni segir, að þegar um fullorðið fólk sé að ræða reyni meðal annars á mat á líkamlegu og andlegu atgervi þess, enda sagði bankinn í svari sínu til fjölskyldunnar að „ekkert í samskiptum viðkomandi hafi gefið tilefni til að ætla að hann glímdi við minnisglöp“.
Af svari bankans þótti ljóst að hann myndi svara af fullri hörku. Aðstandendur mannsins hefðu því þurft að draga í efa andlega getu viðkomandi manns sem er sársaukafullt fyrir alla aðila. Málalyktir urðu því þær að fjölskyldan gerði upp við bankann og hefur ekki í hyggju að fara lengra með málið.