Útlánasafnið á bakvið Icesave var lélegt

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar Landsbankans.
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar Landsbankans. mbl.is

Breska fjármálaeftirlitið sætti sig ekki við að útlán sem stóðu að baki Icesave í Bretlandi stæðu ein sem eign á móti skuldbindingunum. Bankastjóri Landsbankans taldi hins vegar hugsanlegt að íslenska fjármálaeftirlitið sætti sig við þetta.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslunni kemur fram að breska fjármálaeftirlitið (FSA) hafi ítrekað á árinu 2008 rekið á eftir því að reikningarnir yrðu færðir frá Landsbankanum til Heritable Bank, dótturfélag Landsbankans í Bretlandi. Ef það hefði verið gert hefði ábyrgð á skuldbindingunni færst frá tryggingasjóði innistæðueigenda á Íslandi til Bretlands.

Stjórnendur Landsbankans, eftirlitsstofnanir á Íslandi og íslensk stjórnvöld voru sammála um að það væri æskilegt að færa Icesave frá Landsbankanum og í dótturfélagið vegna þeirrar áhættu sem fylgdi þessu fyrirkomulagi, ekki aðeins vegna þeirrar áhættu sem fylgdi því að hafa ábyrgðina á Icesave á Íslandi, heldur ekki síður vegna þess að ef viðskiptavinir Icesave færu að taka út af reikningunum gæti þrengt svo að lausafjárstöðu Landsbankans að hann gæti fallið.

Vandamálið við að færa Icesave frá Landsbankanum var að FSA taldi að útlánin sem stóðu að baki Icesave stæðu ekki undir útlánunum.  Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði á fundi í Seðlabankanum sumarið 2008 að eftirlitsaðilar í Bretlandi skyldu ekki þessi útlán. Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri spurði þá Sigurjón hvort það væri vegna þess að eftirlitsaðilarnir úti væru svona vitlausir eða vegna þess að útlánin væru svona léleg. „Sennilega hvort tveggja,“ svaraði Sigurjón.

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, sagði í skýrslu til rannsóknarnefndarinnar að Sigurjón hefði sagt sér berum orðum að bresk yfirvöld myndu ekki samþykkja útlánasafnið sem eign á móti Icesave skuldbindingunum. Hann sagðist ekki hafa getið skilið orð Sigurjóns á annan hátt en að „það sætti sig enginn við þetta nema kannski íslenska Fjármálaeftirlitið.“

Þegar leið á árið 2008 gætti sífellt meiri óþolinmæði hjá FSA og tónninn frá eftirlitinu varð harðari. 16. ágúst 2008 kom bréf frá FSA til Landsbankans sem Geir H. Haarde forsætisráðherra lýsti sem „hryllilegu“. Landsbankinn svaraði og taldi kröfur FSA óraunhæfar.

Bréfaskiptin og fundahöldin héldu áfram en á endanum yfirtóku bresk yfirvöld útibú Landsbankans í Bretlandi 3. október 2008 og Icesave-málið sprakk í andlitið á íslenskum stjórnvöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert