Vildu refsa Íslendingum

Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, og Gordon Brown, forsætisráðherra.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, og Gordon Brown, forsætisráðherra. Reuters

Rannsóknarnefnd Alþingis segir í skýrslu sinni, sem birt var í gær, að vart sé hægt að draga aðra ályktun af skýringum breskra ráðamanna á því að beita hryðjuverkalögum til að frysta fjármuni Landsbankans í október 2008, en þá að með aðgerðinni hafi ætlunin verið að „refsa“ íslenskum stjórnvöldum.

Nefndin segir ljóst, að með aðgerðum sínum hafi bresk stjórnvöld beitt harkalegri úrræðum en falist hefðu í hefðbundinni kyrrsetningu eigna Landsbankans eða öðrum venjulegum tryggingarráðstöfunum sem algengt sé að gripið sé til í tilefni af greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis.

Rannsóknarnefndin segir, að bresk stjórnvöld hafi talið gjörðir íslenskra stjórnvalda ekki hafa verið í samræmi við yfirlýsingar þeirra um að þau myndu standa við skuldbindingar sínar. Þá virðist bresk stjórnvöld einnig hafa dregið í efa heimild íslenskra stjórnvalda til að tryggja innistæður á Íslandi að fullu en ekki í Bretlandi og litið svo á, að með því væri jafnrétti innstæðueigenda ekki virt.

Áttu að útskýra stöðuna betur

Þá telur rannsóknarnefndin það gagnrýnisvert, að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa sinnt því að útskýra með skýrari hætti fyrir breskum stjórnvöldum hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri gagnvart skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta þótt eftir því væri leitað. Það tengist því hversu lengi íslensk stjórnvöld voru að gera upp við sig hvaða stefnu bæri að taka.

Þá  hafi  íslensk stjórnvöld einnig vanrækt, að útskýra bæði forsendur og hina pólitísku stefnu sem tekin var með neyðarlögunum í október 2008 fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum. Telur rannsóknarnefndin, að íslenskum stjórnvöldum hafi að lágmarki borið að fela utanríkisþjónustunni að útskýra meginsjónarmið sín fyrir þeim eftir lokun markaða 6. október 2008 þegar neyðarlagafrumvarpið var lagt fyrir Alþingi, úr því ráðherrar ákváðu að ræða ekki milliliðalaust við ráðamenn þeirra ríkja þar sem íslensku bankarnir voru umsvifamestir.

„Sérstaklega var þetta brýnt gagnvart breskum og hollenskum ráðamönnum. Það var til þess fallið að hleypa aukinni hörku í samskipti þjóðanna að íslensk stjórnvöld létu þetta undir höfuð leggjast," segir rannsóknarnefndin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert