„Enn ekki búið að spúla dekkið“

Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen
Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen mbl.is/Ómar

„Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er líklega besta meðalið sem íslenska þjóðin hefur fengið síðan Hallgrímur Pétursson orti Passíusálmana,“ sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Hann bætti við að sóðaskapur og rányrkja íslensku bankamannanna undanfarin ár væri einsdæmi í heiminum og „ekki sé enn búið að spúla dekkið“.

Árni Johnsen sem tók til máls síðdegis í gær sagðist telja að skýrslan rói og veki skilning, og um leið umburðarlyndi, sem Íslendingar þurfi á að halda til að standa saman sem þjóð. „Reynslan, þekkingin, mannauðurinn og mannvitið er það sem dugar okkur best, Íslendingum, og á að duga okkur best inn í framtíðina.“

Umburðarlyndið var þó ekki eina umfjöllunarefni Árna. Hann beindi málið sínu einnig að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. „Helmingur bankalána á Íslandi var til eins fyrirtækis, Baugs, og svo dettur einhverjum nýtískuskilanefndarmönnum það í hug að það gangi upp að veita gömlu bröskurunum sem vanvirtu og hirtu peninga íslensku þjóðarinnar forgang að áframhaldandi rekstri fyrirtækja sem þeir notuðu sem blóraböggla til að hirða peninga Íslendinga í eigin þágu.“

Þá velti hann fyrir sér eignarhaldinu á 365 miðlum. „Hvað lagði eigandi skuldugasta fyrirtækis landsins, þúsund milljarða skuldakóngurinn, mesta áherslu á í öllum sínum rekstri? Að halda fjölmiðlinum — að halda fjölmiðlinum og hafa tök á honum. Til hvers skyldi það hafa verið? Það þarf ekki að ræða mikið um það.“

Merki 365 miðla.
Merki 365 miðla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert