Forseti Íslands ber þunga ábyrgð

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason

„Nafn Íslands hefur verið misnotað og það hefur verið farið illa með það á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Þar ber forseti Íslands þunga ábyrgð líkt og margir aðrir,“ sagði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, í umræðunni um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Björn Valur sagði í gær, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi verið klappstýra útrásarinnar og sá sem mest áhrif hafði á framgang hennar erlendis. „Staða forsetaembættisins og það vægi sem forsetinn hefur sem þjóðhöfðingi á erlendum vettvangi gerir hlut hans hins vegar alvarlegri en stjórnmálamanna að mörgu leyti.“

Jafnframt sagði Björn Valur að ætla mætti, miðað við allt sem forsetinn lagði á sig við markaðssetningu íslensku útrásarinnar að hann hafi sjálfur haft beinna hagsmuna að gæta og hafi treyst á ríkulega uppskeru þegar að henni kæmi. „Það á kannski eftir að koma síðar í ljós hvort svo hafi verið.“

Að endingu vísaði Björn Valur í skýrsluna og þar segi að draga megi þann lærdóm af framgöngu forseta Íslands, að skýra þurfi hlutverk hans betur í stjórnarskrá og setja reglur um hlutverk hans og samskipti við önnur ríki auk þess að setja forsetaembættinu siðareglur. „Það er auðvelt að taka undir þetta mat skýrsluhöfunda af þeim lærdómi sem draga má af háttalagi forseta Íslands en það þarf meira til,“ sagði Björn Valur.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á Bessastöðum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert