Viðurkenndi ábyrgð Framsóknarflokks

Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson á Alþingi.
Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Framsóknarflokkurinn hafnar því ekki heldur samþykkir það, að hann ber að hluta til ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið í dag. Ég skammast mín ekkert fyrir það að segja það hér,“ sagði Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, við umræður um skýrslu rannsóknarnefndar á Alþingi í dag.

Birkir Jón sagði greinilegt að innviðir íslensks samfélags hafi brugðist og allir þurfi því að líta í eigin barm, ekki síst þeir sem stýrðu fjármálastofnunum og stærstu fyrirtækjum landsins á undangengnum árum. „Ég skal viðurkenna það, að þegar ég les um þau vinnubrögð þá fyllist ég reiði. Ég er reiður og það eru margir reiðir yfir því hvernig er fyrir okkur komið og hvernig menn hafa hagað sínum störfum í íslensku samfélagi.“

Birkir Jón sagði atburði eins og þá sem lýst er í skýrslu rannsóknarnefndar megi ekki endurtaka sig að nýju. Hann tók fram að Framsóknarflokkurinn hafi farið ítarlega yfir sín mál á undanförnum árum og hann skammist sín ekki fyrir að viðurkenna ábyrgð hans að hluta, á því hvernig er fyrir þjóðinni komið. „Vegna þess að það bera fjölmargir aðilar ábyrgð á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert