Reynir Vignir framkvæmdastjóri PricewaterhouseCoopers, sem var endurskoðendaskrifstofa Landsbankans og Glitnis, segir að við endurskoðun ársreikninga bankanna fyrir árið 2007 hafi endurskoðendur PwC unnið í samræmi við alþjóðlega staðla.
Hann segir að álit endurskoðendanna í áritun á ársreikninga Landsbankans og Glitnis hafi tekið mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendur PwC höfðu aðgang að á þeim tíma sem það var veitt.
Reynir var spurður hvort ekki hefði verið ástæða til að meta gæði útlána bankanna tveggja með öðrum hætti en gert var til þess að gefa glögga mynd af stöðu þeirra: „Við teljum að áritunin eins og hún er á ársreikningum Glitnis og Landsbankans standist. Þegar álitið er gefið út tekur það mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendurnir höfðu aðgang að á þeim tíma þegar það var veitt. Það er ekki hægt að miða við neitt annað og alls ekki við verðmat sem gert var á eignasöfnum bankanna eftir hrun. Verðmæti undirliggjandi eigna breyttist vitanlega mjög mikið við fall bankanna.
Ef störf okkar endurskoðenda koma til skoðunar eða rannsóknar þá munum við að sjálfsögðu leggja okkar vinnugögn fram. En við teljum að við höfum farið eftir öllum reglum og stöðlum sem gilda um endurskoðun á fyrirtæki eins og bönkunum,“ sagði Reynir í samtali við Morgunblaðið í gær.
Sjá ítarlega umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.