Háskólarnir á Akureyri, Bifröst og í Reykjavík halda sameiginlega ráðstefnu í Reykjavík og á Akureyri um helgina þar sem átján sérfræðingar skólanna leitast við að svara þeim spurningum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vekur.
Ráðstefnan verður haldin í dag í húsi HR við Nauthólsvík, í salnum Antares, frá kl. 10 til 17.30. Sama ráðstefna fer fram á morgun í Háskólanum á Akureyri, í stofu L201.
Ráðstefnunni verður skipt í sex málstofur og í hverri þeirra verður fjallað um afmarkaðan þátt hrunsins. Málstofunum verður stýrt af þeim: Ágústi Einarssyni, rektor Háskólans á Bifröst, Bryndísi Hlöðversdóttur, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, Hans Kristjáni Guðmundssyni, deildarforseta viðskipta- og raunvísindasviðs HA og Ragnhildi Helgadóttur, prófessor við lagadeild HR.