Aðalfundur Samfylkingarfélags Borgarbyggðar, sem haldinn var í kvöld, skorar á þingmannanefnd Alþingis, sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að hefja án tafar rannsókn á aðdraganda og falli sparisjóðanna í landinu.
Í yfirlýsingu frá fundinum er bent á að í rannsóknarskýrslu Alþingis, bls. 24 í 1. bindi, komi fram að ekki hafi unnist tími til að taka vandamál sparisjóðakerfisins til umfjöllunar, þótt þau hafi verðskuldað það og það sé undir Alþingi komið hvort þau verði tekin til sérstakrar rannsóknar.
„Sparisjóður Mýrarsýslu var fyrsta bankastofnunin sem féll hér á landi sumarið 2008. Sparisjóðurinn var að fullu í eigu sveitarfélagsins Borgarbyggðar og var sannkallaður hornsteinn í héraði. Það er ekki ofmælt að fall sjóðsins hafi verið reiðarslag fyrir íbúa í Borgarbyggð. Það er álit fundarins að rannsókn á aðdraganda að falli sparisjóðsins, þar sem allir þættir málsins eru dregnir fram með svipuðum hætti og var gert í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi bankana, muni auðvelda samfélaginu að takast á við það umbóta- og endurreisnarstarf sem nú þarf að hefjast," segir í yfirlýsingu Samfylkingarmanna í Borgarbyggð.