Rannsóknarskýrsla Alþingis vitnar á átakanlegan hátt um það hvernig bankaræningjar í sparifötum fóru með þær mikilvægu stofnanir í samfélaginu sem bankarnir eru, segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í ávarpi sínu í Vinnunni í dag, 1. maí, baráttudegi launafólks.
„Þeir skildu eftir sig sviðna jörð og tugþúsundir heimila í sárum. Það er krafa fólksins í landinu að þessir menn verði sóttir til saka fyrir þau spjöll sem þeir hafa unnið landi og þjóð og að þeir skili ránsfengnum. Íslensk þjóð mun aldrei sætta sig við að þessi hópur fjárglæframanna fái lifað í vellystingum í útlöndum meðan alþýða landsins borgar reikninginn," segir Gylfi ennfremur í ávarpi sínu.
Bíta höfuðið af skömminni með því að segjast ekki bera ábyrgð
Hann segir að rannsóknarskýrslan varpi einnig ljósi á annan afar alvarlegan hlut en það er getuleysi íslenskra stjórnmálamanna og dugleysi stjórnsýslunnar.
„Það er átakanlegur lestur. Í aðdraganda bankahrunsins, þegar viðvörunarbjöllur glumdu allt um kring og aðvörunarorð og boð um aðstoð komu erlendis frá, sváfu íslenskir ráðherrar á verðinum og stjórnsýslan var sem lömuð.
Þar brást fólkið sem á að hafa heill lands og þjóðar að leiðarljósi. Fólkið sem á að standa vörð um hagsmuni almennings. Þessi hópur bítur svo höfuðið af skömminni með því að segjast ekki bera ábyrgð á því hvernig fór.
Það er krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkarnir sýni að þeir hafi lært af mistökunum því þjóðin stendur frammi fyrir alvarlegri vá sem verður að bregðast við. 15 þúsund Íslendingar eru atvinnulausir. Það má ekki gerast að atvinnuleysi skjóti hér rótum. Það er samfélagslegt mein sem við verðum að koma í veg fyrir með öllum ráðum," segir forseti ASÍ.