Bandarískur lögfræðingur, William Black, sem sérhæfir sig í hvítflibbaglæpum, segir að rannsóknarskýrsla Alþingis sé ágæt og í sumum tilvikum mjög góð. Hins vegar vanti upp á sé að réttra spurninga sér spurt. Kennslubók í því hvernig stóru bankarnir þrír ástunduðu bókhaldsbrot og svik. Starfsemi bankanna hafi ekki verið neitt annað en svikamylla (Ponzi-like scheme). Black var gestur í Silfri Egils í dag.
Allt gert til að búa til sýndarhagnað
Hvernig bankarnir lánuðu fyrir kaupum á hlutabréfum í bönkunum og hvernig helstu eigendur og vinir fengu endalaus lán. Allt hafi verið gert til þess að búa til sýndarhagnað og um leið auka hag helstu eigenda. Ef slíkt fær að halda áfram lengi þá er ekki nóg með að viðkomandi fyrirtæki fari í þrot heldur allt þjóðfélagið.
Black óttast að ef ekkert verði að gert muni fleiri Íslendingar yfirgefa landið þar sem byrðarnar sem lagðar eru á íbúanna séu svo miklar. Hann varar við því að ekki verði hægt að endurheimta allt það fé sem hvarf en byggja þurfi upp traust.
Seldu djöflinum sálu sína
Hann segir að skýrslan sýni fram á það að stjórnvöld á Íslandi hafi ekki verið neitt annað en klappstýrur fyrir útrásarvíkingana. Hann gagnrýnir skýrslu Frederic S. Mishkin og Tryggva Þórs Herbertssonar harðlega en í skýrslu sem þeir skrifuðu fyrir Viðskiptaráð árið 2006 segir að líkurnar á „algeru fjárhagslegu hruni“ á Íslandi séu „sáralitlar“. Black segir að hér hafi menn selt djöflinum sálu sína.
Black telur að einhver mál sem sérstakur saksóknari muni höfða gegn þeim sem brutu af sér eigi að vinnast. Ef það gerist ekki sé eitthvað að annað hvort íslenskum lögmönnum eða dómskerfinu.
Áður en Black kom í viðtal við Egil í dag var Þorvaldur Gylfason gestur Egils Helgasonar í Silfrinu. Hann sagðist vilja fá Black til þess að aðstoða við rannsókn sérstaks saksóknara líkt og Eva Joly gerir. Egill spurði Black út í þetta og sagðist Black vera meira en reiðubúinn til þess en sagði jafnframt að óvíst væri að hjálp hans yrði þegin vegna þess hve hart hann gagnrýni hluti hér.
Black segir að viðhorfið til fjármálafyrirtækjanna og starfsemi þeirra hafi
breyst mikið undanfarna mánuði í Bandaríkjunum. Verið sé að rannsaka
starfsemi bankanna og hvort þeir hafi gerst sekir um glæpsamlegt athæfi. Hann hefur undanfarið komið fyrir bandaríska þingnefnd sem rannsakar hrun Lehman Brothers. Sífellt fleirum ofbjóði hvernig fjármálafyrirtækin hegðuðu sér og „f- orðið" fræga sé notað æ fleiri sérfræðingum.