Bretar taki þátt í eldfjallarannsóknum

Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli hefur verið mikill og dökkur síðustu daga.
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli hefur verið mikill og dökkur síðustu daga. mbl.is/Hlynur S. Þorvaldsson

Prófessor í jarðeðlisfræði við Durham háskóla á Englandi hefur skrifað nýjum ráðherra vísindamála á Bretlandi bréf og leggur til að Bretar taki þátt í eldfjallarannsóknum á Íslandi ásamt Íslendingum. 

Þetta kemur fram í blaðinu Sunday Times í dag. Þar er rætt við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing við Edinborgarháskóla sem segir, að eldvirkni á Íslandi virðist koma í reglubundnum sveiflum sem nái yfir um 140 ár. Síðustu fimm áratugi hafi eldvirknin verið tiltölulega lítil en virðist nú vera að ná hámarki að nýju.

Blaðið hefur eftir Þorvaldi, að þrjú eldfjöll á Íslandi: Hekla, Askja og Grímsvötn, kunni að vera að nálgast það að gjósa. Blaðið nefnir einnig Kötlu, sem oft hefur fylgt á eftir Eyjafjallajökli. 

Sunday Times segir að Þorvaldur telji, að hegðun eldfjallanna tengist hreyfingum í jarðskorpunni, sem valdi miklum þýstingi á stórum svæðum neðanjarðar. Þegar þessi þrýstingur vaxi valdi það eldgosum en þegar úr honum dragi minnki eldvirknin. 

Blaðið segir, að þetta sé umdeild kenning. Þannig telji Gillian Foulger, prófessor í jarðeðlisfræði við Durham háskóla, að það gæti verið tilviljunum háð að nokkur eldfjöll gjósi á svipuðum tíma. Ljóst sé hins vegar að rannsókna sé þörf og að Evrópubúar þurfi að taka alvarlega þau áhrif, sem eldgos á Íslandi geta haft á flugumferð og aðra starfsemi. Því þurfi að bæta eftirlit með virkum eldfjöllum.

Foulger er því að skrifa til David Willetts, nýs vísindaráðherra Bretlands og segir að Bretar eigi að leggja Íslendingum lið við slíkar rannsóknir.

„Það eru um það bil 35 virk stór eldfjöll á Íslandi og ef komið verður fyrir háþróuðu jarðskjálftamælakerfi og staðsetningarmælum við hvert þeirra getum við oft spáð fyrir um eldgos. Kostnaðurinn er mjög lítill í samanburði við þann efnahagslega skaða sem getur orðið og óvæntu gosi."  

Blaðið hefur eftir Stephen Sparks, prófessor í jarðvísindum við Bristolháskóla, að gosið í Eyjafjallajökli gæti orðið langvinnt og valdið truflunum á evrópskri flugumferð lengi. 

„Öll eldfjöll hafa sín einkenni. Þetta eldfjall hefur gosið árið 1612 og 1821 og hélt þá áfram að gjósa í 15 mánuði. Það er engin ástæða til að ætla að gosið nú verði styttra.  

Sunday Times segir, að nýjar reglur um blindflug geri það að verkum að Ísland og Evrópa geti  tekist á við Eyjafjallajökul. En eldgos í Kötlu gæti valdið meiri erfiðleikum. Haft er eftir Richard Waller, lektor í jarðeðlisfræði við Keele háskóla, segir að öskuský frá slíku gosi gæti orðið gríðarlegt og einnig gæti gosið valdið miklu vatnsflóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert