Beiti ESB í Icesave-deilunni

David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Bresk stjórnvöld hyggjast beita ESB í umsóknarferli Íslands að sambandinu til að tryggja hagstæða niðurstöðu í Icesave-deilunni. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, staðfesti þetta í dag.

Dow Jones-fréttaveitan gerir málinu skil en þar er vitnað til þeirra ummæla Camerons á fundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í síðustu viku að „þetta land [þ.e. Bretland] ætti að vera góður vinur Íslands og dyggur stuðningsmaður frekari stækkunar Evrópusambandsins.“ 

Hinn nýbakaði forsætisráðherra Bretlands bætti svo við: „En Ísland skuldar Bretlandi 2,3 milljarða sterlingspunda [...] Við munum beita aðildarferlinu til að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar því við viljum peningana til baka.“

Ofangreindar upplýsingar vekja athygli í ljósi þeirra ummæla forystumanna íslensku ríkisstjórnarinnar að Icesave-deilan og ESB-umsóknin séu tvö aðskilin mál.

En eins og haft var eftir Leigh Phillips, blaðamanni EU Observer, á fréttavef Morgunblaðsins fyrir helgi telja hollenskir diplómatar sig hafa fullvissu fyrir því að hin ESB-ríkin líti á Icesave-málið sem deilu Íslands og sambandsins alls en ekki sem deilu á milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar.

Laurence Norman, blaðamaður á fréttaveitu Dow Jones, segir í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins að fréttaveitan hafi beðið fyrstu ummæla nýju bresku stjórnarinnar um Ísland. Þau ummæli hafi nú fallið.

Að öðru leyti kvaðst Norman ekki hafa neinar upplýsingar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka