Gripinn með tvær milljónir á Keflavíkurflugvelli

Karlmaður var í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi …
Karlmaður var í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður var í dag dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Á hann að hafa tekið við reiðufé sem nam 1.990.000 krónum frá aðila eða aðilum sem hafði áskotnast féð með sölu og dreifingu fíkniefna.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Karlmaðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þann 16. september 2023 og þá var hann með fjármunina í fórum sínum. Var maðurinn á leiðinni til Póllands.

Reiðuféð gert upptækt

„Með háttsemi sinni móttók ákærði ávinning af refsiverðum brotum, geymdi ávinninginn, flutti og leyndi ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans,“ segir í dómnum.

Manninum er gert að sæta 4 mánaða fangelsi en fresta verður fullnustu refsingu og látin niður falla eftir tvö ár, haldi maðurinn almennt skilorð. Þá verður reiðuféð gert upptækt en það er þegar í vörslu lögreglunnar á Suðurnesjum.

Maðurinn hefur ekki áður gerst uppvís að refsiverðri háttsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert