„Við vildum bara opna á þetta málefni sem er búið að vera lokað hér í Hveragerði í 30 ár og hvetja fólk til umræðu,“ segir Róbert Guðmundsson, sem ásamt félaga sínum stofnaði í gær Facebook síðuna Eineltisþolendur í Grunnskólanum í Hveragerði. Viðbrögðin eru mikil.
Kveikjan að opnun síðunnar var ítarlegt viðtal í DV í gær við móður
drengs í Hveragerði sem orðið hefur fyrir hörðu ofbeldi í skólanum. Róbert og
félagi hans eru kunnugir fjölskyldunni og auk þess báðir með reynslu af einelti
á sínum æskuárum í Hveragerði. 692 manns hafa „líkað“ við síðuna á þeim sólarhring síðan hún var stofnuð og ýmsir deilt eigin reynslusögu og öðru sem þeir hafa til málsins að leggja. Í kjölfarið var í dag einnig stofnuð síðan „Eineltisþolendur í grunnskólum á Íslandi“ þar sem þörf var talin á að útvíkka umræðuna
„Þessi vandi er auðvitað út um allt land en virðist vera mikill hér í Hveragerði, meiri en mig hefði grunað því viðbrögðin hafa verið langt fram úr því sem við áttum von á. Við stofnuðum netfang í gær til að taka á móti sögum frá þeim sem treysta sér ekki til að segja sögur sínar undir nafni og fólk er búið að senda okkur alveg hræðilegar sögur, sem við reynum að birta jafnóðum á síðunni."
Á síðunni eru einnig birt ráð til foreldra gerenda eineltis þar sem foreldrar eru hvattir til að taka það alvarlega ef börn þeirra eru sökuð um einelti og vinna með skólanum að lausn. Róbert segist jafnframt telja að skólayfirvöld þurfi að taka eineltismál fastari tökum. „Það virðist allavega virkilega vera þörf fyrir þessa umræðu, því eins og ég segi þá áttum við alls ekki von á þessum viðbrögðum, þetta hefur eiginlega orðið algjör sprenging en það er ánægjuleg sprengja og þessi síða verður opin eins lengi og við getum gert eitthvað í þessu, því þetta snýst um börnin okkar sem munu erfa landið."