Ríkisstjórnin afgreiddi kvótafrumvarp

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að frumvarp um stjórn fiskveiða færi nú til þingflokka ríkisstjórnarflokkanna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að frumvarpið færi til þingflokkanna annað hvort í dag eða á morgun og það yrði síðan kynnt fyrir hagsmunaaðilum áður en það verður lagt fram formlega á Alþingi. 

Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um hækkun veiðigjalds og að 30% af veiðigjaldi fari til sjávarbyggða, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þegar sjávarútvegsráðherra kynnti heildaraflamark þessa fiskveiðiárs síðasta sumar kom fram að áætlað væri að veiðigjald eða auðlindagjald skilaði hátt í þremur milljörðum í ríkissjóð á þessu fiskveiðiári.

Síðustu tæplega tvo mánuði hafa fjórir ráðherrar í ríkisstjórninni komið að vinnu við gerð frumvarps um skipan mála í fiskveiðistjórnun.

Auk Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra hafa Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra tekið þátt í þessari vinnu. Guðbjartur var formaður samninganefndarinnar svokölluðu sem fjallaði um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnar í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Sá starfshópur var skipaður í júlí 2009 og var fyrsti fundur hans í október. Starfshópurinn skilaði af sér í september 2010. Í nóvember var skipaður samstarfshópur sex þingmanna stjórnarflokkanna sem skilaði af sér minnisblöðum um málið í febrúar. Þá voru þingmennirnir reyndar orðnir fimm því Atli Gíslason hafði sagt skilið við þingflokk Vinstri grænna.

Vinnuhópar í ráðuneytinu unnu að afmörkuðum þáttum frá nóvember til febrúarmánaðar. Eftir það hófst vinna í ráðuneytinu að smíði frumvarps sem kynnt var í byrjun mars, samkvæmt heimildum blaðsins. Jafnframt funduðu starfsmenn ráðuneytis með þingmönnum og ráðherrum um málið.

Starfshópur ráðherranna lauk síðan störfum á Þingvöllum á sunnudag, eftir tæplega tveggja mánaða vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka