„Ég tel að hér sé útfærð sú grundvallarkerfisbreyting sem við höfum stefnt að og báðir flokkarnir hafa barist fyrir í þessum efnum. Það er farin ein tiltekin leið í þeim efnum sem hefur legið í loftinu að yrði farin, leið þessara nýtingarsamninga,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag um frumvarp til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun sem samþykkt var á fundinum.
Steingrímur sagði að sú leið sem byggt væri á í frumvarpinu mætti þeim markmiðum um grundvallarkerfisbreytingu sem ríkisstjórnin hefði barist fyrir. Hann sagðist þó að öðru leyti ekki vilja fara efnislega nánar ofan í málið áður en það hefði verið kynnt þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og hagsmunaaðilum.