Telja meirihluta á þingi fyrir málinu

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er auðvitað stórt og erfitt mál og mörg sjónarmið í þessu máli og skoðanir en ég held að niðurstaðan sem hér er fengin sé ásættanleg fyrir okkur hér í ríkisstjórninni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag þar sem nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða var samþykkt.

Jóhanna sagði að málið færi til þingflokka stjórnarflokkanna annað hvort síðar í dag eða á morgun þegar endanlega hefði verið gengið frá kostnaðarmati vegna frumvarpsins. Frumvarpið yrði síðan kynnt á lokuðum fundi með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi eins og heitið hefði verið í tengslum við nýafstaðnar kjaraviðræður. Að því loknu færi málið til þingsins og yrði í kjölfarið kynnt opinberlega.

Aðspurð sögðu Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að alger samstaða væri um málið í ríkisstjórninni. Þá telja þau að meirihluti verði fyrir málinu á þingi og jafnvel að ekki væri útilokað að stuðningur kæmi við það frá fleiri þingmönnum en úr þingflokkum stjórnarflokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert