Veiðigjald hækkar um 70%, byggðakvóti verður aukinn, varanlegt framsal verður leyft í 15 ár og úthlutun á aflaheimildum verður breytt í nýtingarheimildir. Þetta er meðal þess sem felst í kvótafrumvörpunum tveimur, sem lögð voru fram af Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra og afgreidd úr ríkisstjórn í gærmorgun.
Nefnd, sem á að leggja mat á hagræn áhrif frumvarpsins, fékk það afhent í gær og mun líklega ljúka störfum í júní. „Okkur er ætlað að skoða áhrifin út frá þeim þáttum og breytingum sem frumvarpið lýtur að,“ segir Axel Hall hagfræðingur, formaður nefndarinnar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, að fyrst hefði átt að kanna hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á þjóðarhag. Hann segir að frumvarpið hafi ekki verið kynnt sér, einu upplýsingarnar sem hann hafi um það komi úr fjölmiðlum. „Þetta frumvarp felur í sér afturför fyrir þjóðfélagið,“ segir Friðrik. Hann er ennfremur afar ósáttur við að aðilar sjávarútvegsins hafi ekki fengið að taka meiri þátt í þessari ákvarðanatöku.
„Gera á grundvallarbreytingar á kerfinu, en ekki er búið að fara yfir það hvaða þjóðhagslegu áhrif þær gætu haft,“ segir Jón Gunnarsson, sem er í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.