Sægreifarnir ekki í sáttahug

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag, að hryllilegar yfirlýsingar formanns Landssambands íslenskra útvegsmanna í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, um væntanleg sjávaraútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar, sýndu að sægreifarnir séu ekki neinum sáttahug í kvótamálinu.

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagði m.a. í fréttum Útvarpsins, að þær tillögur, sem gerðar væru í frumvarpi um stjórn fiskveiða, væru alger hryllingur og gætu ekki staðist miðað við yfirlýsingu  ríkisstjórnarinnar um að treysta eigi rekstargrundvöll sjávarútvegsins.

„Mér sýnist miðað við fyrstu lýsingarnar, að það sé verið að stórskemma kerfið og skerða rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem eru í atvinnugreininni," sagði Adolf. Hann sagði frumvarpið hafa verið unnið í mikilli leynd og án samráðs við atvinnugreinina.  

„Frekja og yfirgangur  LÍÚ er svo yfirgengilegur að þeir setja ekki aðeins kjarasamninga í uppnám heldur skirrast þeir ekki við að hrauna yfir stjórnarfrumvörp sem þeir hafa ekki einu sinni séð," sagði Helgi Hjörvar.

Hann sagði að  þessi viðbrögð útvegsmanna kölluðu á, að þjóðin verði fengin til að setja niður í eitt skipti fyrir öll þessar deilur. „Ég er sannfærður um, að þá mun LÍÚ uppgötva, að hjá almenningi er ríkur vilji til breytinga í sjávarútvegsmálum."

Helgi sagði að kvótagreifarnir hefðu greinilega verið andvaka í nótt yfir sögusögnum í fjölmiðlum um, að þeir eigi aðeins að greiða 5-6 milljarða króna fyrir aðgang sinn að helstu auðlind  Íslendinga. Veruleikinn væri hins vegar sá, að hreinn hagnaður í sjávarútvegi hefði verið 45 milljarðar samkvæmt árgreiðsluaðferð á árinu 2009.

„Er það þá trúverðugt,  jafnvel þótt þessar sögusagnir séu réttar, að þá myndi það ríða á slig atvinnugrein, sem hefur slíkan stórgróða við núverandi aðstæður í hagkerfinu?" spurði Helgi og svarði: „Fjarri því".

Hann sagði að yfirlýsingar formanns LÍÚ sýna að útvegsmenn væru enn á ný lagðir af stað í ómerkilegan hræðsluáróður með upphrópunum um að allt væri að fara á hlið ef þeir þurfi að skila almenningi minnstu hlutdeild í þeim gríðarlega hagnaði sem sjávarútvegurinn nyti nú. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert