Gistu við Grímsvötn í nótt

Myndin var tekin þegar gosið var ný hafið. Ljósmyndarinn í …
Myndin var tekin þegar gosið var ný hafið. Ljósmyndarinn í hópi fólks sem var að koma af Hvannadalshnjúk. mynd/Grétar Einarsson

Hópur félaga í Hjalparsveit skáta í Reykjavík gisti við Grímsvötn í nótt, en þeir voru þar á æfingu. Hópurinn lagði af stað frá Grímsfjalli um hádegi, en gos hófst þar um fimm klukkutímum síðar.

Hilmar Már Aðalsteinsson, aðstoðarsveitarforingi hjá Hjálparsveit skáta, sagði að hópurinn væri núna í tjöldum á Skálafellsjökli. Hann hefði verði verið í sambandi við jarðvísindamenn og Almannavarnir í dag. Ekkert amaði að hópnum.

„Hluti hópsins gisti við Grímsvötn í nótt og lagði af stað þaðan upp úr hádegi,“ sagði Hilmar.

Hilmar sagði að hópurinn hefði ekki orðið var við neitt óvenjulegt við Grímsvötn í dag. Hann sagðist hins vegar hafa heyrt af því að menn sem gengu á Hrútfellstinda hefðu talið sig finna brennisteinslykt í morgun.

Örlygur Sigurjónsson leiðsögumaður áætlar að á annað hundrað manns hafi verið á Vatnajökli í dag en hópar gengu á Hvannadalshnjúk og Hrútfellstinda í dag. Sjálfur gekk Örlygur með hópi fólks á Hvannadalshnjúk, en hann var við Lómagnúp þegar gosið hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert