Hafa beðið eftir eldgosi

Frá eldgosi í Grímsvötnum árið 1996.
Frá eldgosi í Grímsvötnum árið 1996. Rax / Ragnar Axelsson

Jarðvísindamenn hafa búist við gosi í Grímsvötnum allt þetta ár. Hlaup kom úr sigkatlinum í Grímsvötnum í 31. október í fyrra og margir reiknuðu þá með að færi að gjósa.

Miklar breytingar hafa átt sér stað við Grímsvötn frá því að 1996. Þann 30. september það ár í  varð eldgos í Vatnajökli, á milli Bárðarbungu og Grímsvatna á um 7 km langri sprungu. Í fyrstu gaus undir 400–600 m þykkri íshellunni en 2. október braust gosstrókurinn upp úr jöklinum. Gosið stóð til 13. október. Mikil gjá myndaðist í jökulinn og hlaut hún nafnið Gjálp. Þetta kemur fram á jarðfræðivefnum.

Bræðsluvatn frá eldstöðvunum rann undir jöklinum niður í Grímsvötn og safnaðist þar fyrir. Bræðsluvatnið lyfti smám saman íshellu Grímsvatna þar til 4. nóvember að ísstíflan þar brast. Þá hófst gríðarmikið jökulhlaup niður á Skeiðarársand. Hlaupið kom meðal annars fram í farvegum Skeiðarár og Sandgígjukvíslar og varð hámarksrennsli þess um 45 þúsund rúmmetrar á sekúndu, eða álíka og hundraðfalt rennsli Ölfusár.

Mikið tjón varð á mannvirkjum á Skeiðarársandi. Um 10 km sópuðust burt af þjóðveginum yfir sandinn, brúin yfir Sandgígjukvísl hvarf og lengsta brú landsins yfir Skeiðará styttist um heila 200 m. Þá rofnuðu rafmagnslína og ljósleiðari. Þrátt fyrir allt þetta má segja að mannvirkin hafi staðist þessa þolraun með prýði.

Þegar hlaup kom í Gígjukvísl í fyrrahaust áttu jarðvísindamenn allt eins von á nýju gosi. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði þá að hlaupið gæti virkað eins og „gikkur“ á eldgos.

Í hlaupinu sem varð árið 2004 rann vatnið í Skeiðará en farvegur hennar er nú þurr vegna mikilla breytinga sem hafa orðið við jökulsporðinn. Jökullinn hefur hopað og því rann allt vatn sem kom undan jöklinum í hlaupinu haustið 2010 vestur með honum og í Gígju. Það mun því reyna mikið á Gígjubrú í nýju hlaupi, en brúin á að þola stór hlaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert