Bændur með skepnur í forgangi

Öskumistur úr Grímsvatnagosinu
Öskumistur úr Grímsvatnagosinu mbl.is/

„Hér er nú heldur að birta í lofti, ætli það sé ekki 2 kílómetra skyggni og sólin að brjótast í gegn en öskulagið er svona, hálfur til einn millimetri," segir Sigurður Gunnarsson bóndi á Hnappavöllum í Öræfasveit. Sigurður var á ferðinni í alla nótt með Björgunarsveitinni Kára við að keyra út grímur og hlífðargleraugu.

„Við fórum vestur yfir Skeiðarársand um þrjúleytið í nótt á sérútbúna bryndrekanum okkar, sem var talsvert notaður í Eyjafjallajökulsgosinu í fyrra. Þar kom lögreglumaður frá Klaustri á móti okkur með grímur og gleraugu sem við dreifðum austur í miðja Suðursveit."

Sigurður segir að áhersla hafi verið lögð á að fara heim að bæjum þar sem er búpeningur. „Þetta er fyrst og fremst ætlað bændum sem þurfa að sinna skepnum, því almenningur er beðinn um að vera inni. En við skildum eftir grímur hjá ferðaþjónustuaðilum líka en þar er happ og hending hvort magn passar við mannfjöldann." Hann segist ekki sjá að bændur í Öræfum séu byrjaðir að setja inn skepnur ennþá en þeir muni eflaust gera ráðstafanir þegar líður á daginn. 

Bíll björgunarsveitarinnar er sérútbúinn með loftræstikerfi sem tekur loft í gegnum síur og Sigurður segir að öskufallið hafi lítið plagað þá í nótt, enda hafi nánast verið logn og enginn á ferðinni. „En við mættum einum bíl í Suðursveit og þá þurftum við að stoppa út af mekkinum sem þyrlaðist upp, því það varð svo lítið skyggni."  Sigurður segir að öskulag sé í gluggakistum á Hnappavöllum en lagið sé mismikið í sveitunum og að því er virðist mest frá Jökulsárlónu og upp undir Hala í Suðursveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert