Ekkert dregur úr krafti gossins

Eldingar eru í gosmekkinum.
Eldingar eru í gosmekkinum. mynd/Skarphéðinn Þráinsson

„Stóra spurningin nú er hvenær fer að draga úr krafti gossins og það eru ekki komnar fram neinar vísbendingar um hvenær það verður, þannig að þessi kraftmikla byrjun á gosinu virðist halda áfram," segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ljóst er að gosið nú er með stærri Grímsvatnagosum og langtum stærra en síðasta gos, árið 2004. „Stærð svona sprengigoss er gróft metið út frá hæð gosmakkarins. Hæð hans segir okkur hvað mikið af efni streymir upp í gegnum gosrásina og þessi hæð sem við sjáum núna, 17 til 20 kílómetra hæð í upphafi goss, hún er næstum því tvöföld það sem var í gosinu 2004 og það þýðir að kvikustreymið er miklu meira, svo þetta er miklu meira gos en 2004," segir Freysteinn.

Skýrari mynd  er nú kominn á hvar gosstöðvarnar eru og virðist þær að sögn Freysteins vera nánast á sama stað og gaus árið 2004, sem er í suðvesturhorni Grímsvatnaöskjunnar. Ekki er útlit fyrir annað en að öskufallið haldi áfram um sinn að sögn Freysteins. „Askan sem fellur er í takt við gang gossins og þar virðist ekki draga úr enn. Askan er fínkorna og það þarf að gera ráðstafanir til að anda henni ekki að sér."

Askan hefur nú þegar dreift úr sér á mun stærra svæði en í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra og segir Freysteinn það ráðast af samspili ýmissa þátta. „Gosmökkurinn er flóknari en við höfum séð í síðustu gosum, líkega vegna flókins vindakerfis yfir gosstöðvunum og hægari vinds sem spilast saman við breytilega virkni yfir gossstöðvunum.  Þannig að askan dreifist í margar mismunandi áttir, í upphafi gossins dreifðist hún þannig bæði áberandi til suðvestur úr neðrihluta makkarins og til austurs úr efrihluta makkarins. Áhrifin eru því meiri og ekki jafn staðbundin og í Eyjafjallajökulsgosinu."

Búið er að taka sýni af öskuni og eru þau nú til rannsóknar hjá Jarðvísindastofnun, með tilliti til mengunarhættu en þær niðurstöður liggja enn ekki fyrir að sögn Freysteins.  „En það er slæmt fyrir alla að anda þessu að sér og þarf að fylgja ábendingum almannavarna um að vera með grímu fyrir vitunum og ef grímur eru ekki til staðar þá rakan klút.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert