Öskufall frá Vík og að Höfn

Greinilegt öskufall er úr gosmekkinum.
Greinilegt öskufall er úr gosmekkinum. mynd/Andri Orrason

Talvert mikið öskufall hefur verið frá eldgosinu í Grímsvötnum í nótt. Borist hafa upplýsingar um öskufall allt frá Vík í Mýrdal að Höfn í Hornafirði.


Gosmökkurinn sást frá Kirkjubæjarklaustri, Vík, Skaftafelli og víða á Suðurlandi og frá Reykjavík. Mökkurinn náði fljótlega mikilli hæð og um miðnætti var hann kominn í 19 til 20 kílómetra hæð. Vísindamenn flugu yfir gosstöðvarnar í gærkvöldi og virðist gosið mun öflugra en gosið árið 2004. Þetta kemur fram í skýrslu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem send var út í nótt.

 
Vart hefur orðið við öskufall víða  á Suðurlandi. Borist hafa upplýsingar um öskufall allt frá Vík í Mýrdal að Höfn í Hornafirði. Gert er ráð fyrir að öskufall verði mest til suðausturs en einnig í suður. Seinni part nætur má jafnvel búast við smávægilegu öskufalli á austanverðu og suðvestanverðu landinu.

Um er að ræða basaltgos með nokkuð fíngerðri ösku. Íbúum svæðisins er bent á að kynna sér öskufallsbækling, sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Öndunargrímur og öryggis- og varnargleraugum verður dreift til íbúa á svæðinu.

Vegagerðin hefur lokað veginum yfir Skeiðarársand af öryggisástæðum og verður vegurinn vaktaður af lögreglunni. Sjá nánari upplýsingar á vefsíðu Vegagerðarinnar:   www.vegagerdin.is
Lokanir fyrir flug nærri gosstöðvunum eru 100 sjómílur út frá eldstöðinni.

Allt flug óbreytt

Ljóst er að Keflavíkurflugvöllur verður opinn fram til klukkan 07:00 og þá verður staðan metin að nýju. Sama gildir um innanlandsflug, segir í skýrslunni.

Um 70 eldgos hafa orðið í eldstöðvakerfi Grímsvatna á sögulegum tíma . Síðustu gos sem náðu upp úr jökli urðu 2004, 1998, 1996, 1983 og 1934. Þessi  gos urðu í Grímsvatnalægðinni nema gosið árið 1996 sem kennt er við Gjálp. Gosum í Grímsvötnum fylgja jafnan jökulhlaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert