Strandaðir á Íslandi

Svissneskur ferðamaður við Kirkjubæjarklaustur í dag.
Svissneskur ferðamaður við Kirkjubæjarklaustur í dag. Reuters

Fjöldi erlendra ferðamanna er nú strandaður á Íslandi vegna eldgossins í Grímsvötunum. Meðal þeirra sem ekki komast frá landinu eru söngvarar í dönskum kór sem áttu bókað flug síðdegis til Kaupmannahafnar í dag.

Danska ríkisútvarpið segir frá þessu en á vef þess greinir frá því að 22 söngvarar, forsöngvari og kórstjóri séu strandaðir í Reykjavík.

„Við erum í biðstöðu og búumst ekki við því að komast af stað í dag,“ hefur vefurinn eftir kórstjóranum, Tinu Fresco.

Kom jafnframt fram í fréttinni að kórinn hefði notað tækifærið og farið í skoðunarferð um Reykjavík í dag. Segir að hópurinn hafi ætlað að skoða nýja menningarmiðstöð í borginni og er þá vafalaust átt við Hörpuna.

Sló Fresco svo á gamansaman tón og sagði kórinn geta tekið lagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert