Dúxaði í MK og keppir í crossfit

Þuríður Erla Helgadóttir.
Þuríður Erla Helgadóttir.

Þuríður Erla Helgadóttir, tvítug Kópavogsmær, útskrifaðist frá Menntaskólanum í Kópavogi síðastliðinn föstudag og var dúx skólans með meðaleinkunnina 8,82. Þuríður fékk einnig 8 viðurkenningar, fyrir námsárangur í efnafræði, eðlisfræði, stærðfræði, jarðfræði, líffræði, viðurkenningu frá Háskólanum í Reykjavík fyrir góðan árangur í raunvísindum, styrk frá rótarýfélaginu í Kópavogi og styrk úr sjóði í MK.

„Ég hef mjög mikinn metnað,“ segir Þuríður um þennan góða árangur, hann náist ekki að sjálfu sér. „Ég eyði dágóðum tíma í að læra. Þetta er ekki meðfætt,“ bætir hún hógvær við.

Þuríður segist ekki hafa haft neitt sérstakt markmið í huga en stefnan hafi alltaf verið sett á háskólanám, þá helst á nám í læknisfræði eða sjúkraþjálfun. Þær áætlanir hafi þó verið settar í salt í bili.

Keppir á Evrópuleikunum

„Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum og er búin að vera að æfa crossfit í ár. Og nú stefni ég á að hefja nám í Keili í haust í ÍAK einkaþjálfun,“ segir Þuríður. Um sé að ræða eins árs nám sem gæti reynst góður grunnur fyrir t.d. nám í sjúkraþjálfun ásamt því að gagnast henni í crossfit-þjálfuninni.

Þuríður leggur sama metnað í áhugamálið eins og námið og mun 3. júní næstkomandi keppa í liði CrossFit Sport á Evrópuleikunum í íþróttinni. Efstu þrjú liðin á Evrópuleikunum öðlast keppnisrétt á heimsleikunum, sem haldnir verða í Los Angeles og þangað er stefnan sett.

Lagaðist í hnjánum

„Mamma mín og systir byrjuðu á undan mér að æfa. Ég var búin að vera í frjálsum áður en ég fór í crossfit en var búin að vera meidd í hnjánum í þrjú ár og búin að fara í tvær liðþófaaðgerðir,“ segir Þuríður. Hún hafi varla getað hlaupið og verið komin með leiða á því að hjóla. Síðan hún byrjaði í crossfit sé hún hins vegar búin að vera fín í hnjánum.

„Ég held að margir myndu segja að þetta væri ekki gott fyrir hnén, þetta er mikið af lyftingum og slíku. En ég held að þetta hafi bara styrkt vöðvana í kringum hnén. Þetta hefur allavega bara hjálpað mér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert