„Ég hélt að maður væri búinn með kvótann,“

Aska á heyrúllum á Hraungerði í Álftaveri.
Aska á heyrúllum á Hraungerði í Álftaveri. mbl.is/Eggert

„Ég hélt að maður væri búinn með kvótann,“ sagði Þórarinn Eggertsson, bóndi í Hraungerði í Álftaveri. Álftaver er austan við Mýrdalssand og því í útjaðri öskufallssvæðisins. Það fékk sinn skammt af öskufalli í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra.

Þórarinn var ásamt Oddi syni sínum að reka saman lambfé. Sauðburði var að ljúka þegar eldgosið hófst og búið að sleppa fénu. Þórarinn hefur ekki húspláss fyrir féð með lömbum, og því var reynt að þrengja sem mest að því við húsin í gær og gefa nóg hey og vatn.

Öfunda Norðlendinga af snjónum

Þótt meira öskufall hafi verið undir Eyjafjöllum fengu bændur í Álftaveri sinn skammt í fyrra. Þeir hafa verið að kljást við afleiðingar þess í vetur. „Það var mikið ryk í heyinu. Það var gróft og ólystugt,“ sagði Þórarinn. Eitthvað var um að rykið færi illa í skepnur, sérstaklega nautgripi, en það lagaðist venjulega á tveimur til þremur dögum þegar þeim var gefið rykfrítt hey úr fyrningum fyrra árs.

„Nú er lítið til af öskufríum fyrningum,“ sagði Þórarinn. „Við höfðum orð á því feðgarnir áðan að nú öfunduðum við Norðlendinga af snjónum. Hretið gengur þó yfir og snjórinn hverfur þegar hlýnar,“ sagði Þórarinn.

Þótt dagurinn í gær hafi verið erfiður hafði Þórarinn þó meiri áhyggjur af næstu mánuðum. Hann rifjaði upp að Grímsvatnagosið 1873 hefði staðið í sjö mánuði. „Ef við lendum í slíku gosi verðum við í miklu basli í sumar,“ sagði hann og leynir því ekki að honum þyki þetta uggvænleg tilhugsun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert