Færanleg veðursjá mælir mökkinn

Mælingamenn við veðursjána skammt frá Hótel Laka.
Mælingamenn við veðursjána skammt frá Hótel Laka. Reuters

Færanleg veðursjá var sett upp í Landbroti í upphafi eldgossins í Grímsvötnum á laugardagskvöld. Hún er notuð til að mæla gosmökkinn, hæð hans og útbreiðslu.

Veðurstofa Íslands er með veðursjána að láni frá Ítalíu og reynir nú á hana í fyrsta skipti í eldgosi.

„Það hefur gengið vel, þegar hún hefur haldist gangandi,” segir Þórarinn Harðarson, verkfræðingur hjá Veðurstofunni, einn þeirra sem sjá um veðursjána.

Veðursjáin er dísilknúin og hafa komið upp ýmis vandamál sem Þórarinn segir að erfitt og tímafrekt getur verið að leysa við aðstæður sem eru á öskufallssvæðinu, öskufall og myrkur.

Hann segir að veðursjáin skili góðu gögnum. Þau fara beint til Veðurstofunnar og nýtast veðurfræðingum við spár um útbreiðslu gosmakkarins.

Veðursjáin er mikið tæki, um 4 metra há og 3 tonn að þyngd.

Ekkert lát er á öskufalli í Landbroti og víðar á Suðausturlandi og ekki sést á milli stika við þjóðveginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert