Sáu ekki stikur eða kanta

Guðmundur Kristján Ragnarsson mælir þykkt öskulagsins.
Guðmundur Kristján Ragnarsson mælir þykkt öskulagsins. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta hefur verið mjög langur og strembinn dagur. Maður er bara orðinn hálflúinn,“ sagði Guðmundur Kristján Ragnarsson úr Björgunarsveitinni Víkverja í Vík, þegar blaðamaður náði tali af honum í gærkvöldi.

Hann var þá á leið á vakt við lokun á hringveginum við Höfðabrekku rétt austan Víkur. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að undir kvöld lauk hann langri vakt sem hófst með útkalli snemma í gærmorgun. Þá barst beiðni um aðstoð við smölun á Kirkjubæjarklaustri.

„Þegar við fórum að nálgast Klaustur var orðið það dimmt að maður sá ekki stikur, vegkanta eða eitt eða neitt,“ segir Guðmundur. „Manni leið bara eins og á dimmri vetrarnótt.“ Að smöluninni lokinni rak eitt útkallið annað. „Við fengum beiðni um aðstoð niðri í Landbroti og Meðallandi [í Skaftárhreppi], en þar aðstoðuðum við við að koma hestum á hús í Hátúni. Svo sátum við þar föst í klukkutíma áður en við fórum aftur á Klaustur,“ segir Guðmundur, en á meðfylgjandi mynd sýnir hann öskudýptina í Landbroti.

Tekið var að skyggja í Vík í gærkvöldi og áætlaði Guðmundur að skyggnið væri 500 metrar hið mesta. „Við upplifðum þetta hérna í fjórar vikur á síðasta ári. Ég stóð allan tímann í því gosi. Það er svolítið meira en að segja það að standa í þessu,“ segir Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert