Sótsvartir jakar

Mynd af vefmyndavél Mílu sýnir svarta jakana á Jökulsárlóni.
Mynd af vefmyndavél Mílu sýnir svarta jakana á Jökulsárlóni.

Aska frá eldgosinu í Grímsvötnum hefur dreifst víða. Á vefmyndavél Mílu má nú sjá sótsvarta jaka í Jökulsárlóni en þar er mjög grámyglulegt um að litast.

Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóri Jökulsárlóns, segir í samtali við mbl.is að um þremur tímum eftir að gos hófst á laugardagskvöld hafi allt orðið svart.

„Um tíu um kvöldið var komið myrkur og það byrjaði að rigna ösku mjög fljótlega,“ segir Einar. Brúnn grámi liggi nú yfir öllu, nema á jökunum sem verða sótsvartir þegar askan blotnar. Þetta hafi komið í ljós á sunnudagsmorgun þegar það birti til.

Aðspurður segir hann að engir ferðamenn séu nú á svæðinu. Einar, sem skipuleggur bátsferðir á lóninu, segir að þegar sé búið að afbóka ferðir. „Þeir sem áttu bókað í gær og í dag koma ekki, enda ófært. Þannig að það er strax byrjað að afbóka,“ segir hann.

Einar, sem er búsettur á Höfn í Hornafirði, segir að bærinn hafi sloppið að mestu við öskuna. Hins vegar megi sjá öskumistur við jöklana í kring.

„Við erum alltaf bjartsýn hérna,“ segir Einar þegar hann er spurður hvernig hljóðið sé í íbúum.

„Við erum ekkert óvön því að glíma við náttúruna hérna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert