Fréttaskýring: Tífalt öflugra gos en í fyrra

Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær.
Gosmökkurinn frá eldstöðinni í Grímsvötnum í gær. mbl.is/RAX

„Þegar gos nær í þessa miklu hæð og fer upp í heiðhvolfið, þá er þetta orðið mjög öflugt,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, um eldgosið í Grímsvötnum sem hófst á laugardagskvöld. Hann flaug að gosinu í gærmorgun.

„Svo er líka þetta mikla öskufall á stóru svæði. Þetta er allt vitnisburður um það sama: gosið er mjög öflugt og miklu öflugra en Eyjafjallajökulsgosið.“

Óhjákvæmilega vakna spurningar um það hvernig þetta gos lítur út í samanburði við eldgosið í Eyjafjallajökli, en sums staðar á Suðurlandi er enn tekist á við afleiðingar þess og viðbúið að margir séu með hnút í maganum yfir gosinu nú. Magnús Tumi áætlar að fyrsta hálfan sólahringinn hafi gosið í Grímsvötnum verið tífalt kraftmeira en gosið í fyrra. Veigamikill munur á gosunum tveimur er að nú gýs mun fjær byggð og gosið að því leyti hættuminna. Magnús Tumi segir gosið í Eyjafjallajökli einnig hafa verið sérstakt að því leyti að það stóð yfir í langan tíma og reif sig sífellt upp að nýju. Hann segir að líklega sé kraftur eldgossins nú strax minni en í upphafi þess.

Öflug gos síðar í hrinunni

Það kemur ekki á óvart að gjósa skuli í Grímsvötnum nú, enda eldgos þar reglulegur viðburður. Aðspurður segir Magnús Tumi sérfræðinga hins vegar ekki endilega hafa átt von á því að gosið yrði jafn öflugt og raun ber vitni. „En ef við skoðum söguna, þá mátti alveg búast við því að það kæmi verulega öflugt Grímsvatnagos,“ segir hann. Grímsvatnagos gangi í gegnum hrinur sem standi í 60-80 ár.

„Það virðist vera að fyrstu gosin í hrinunni séu yfirleitt ekki svo öflug, en þegar komið er svolítið fram í hrinunni kemur töluvert öflugt gos. Þetta fylgir því.“ Sem dæmi hófst gos í Grímsvötnum um 1860, og öflugt gos varð síðan árið 1873. Sambærileg þróun átti sér stað á sautjándu öld.

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 og er gosið nú á sama stað og þá, í suðvesturhorni Grímsvatna. Það gos var lítið miðað við gosið nú. „Þetta er miklu öflugra gos en í þeim Grímsvatnagosum sem við

höfum séð. Það þarf sjálfsagt að fara aftur á 19. öld til að finna jafn

öflugt Grímsvatnagos,“ segir Magnús Tumi.

Ís hefði verið lítil fyrirstaða

Enginn ís var ofan á gígunum þegar gosið hófst á laugardagskvöld og því lítil ísbráðnun sem fylgir gosinu. „Það gýs yfirleitt við jaðar íshellunnar,“ segir Magnús Tumi. „Þar er jafnan ekki mikill ís og hefur ekki mikil áhrif.“ Ísinn er hins vegar ekki mikil fyrirstaða þegar jörðin opnar sig og hefði litlu breytt um þróun gossins. „Þegar gosið er svona öflugt þá vinnur það sig hratt í gegn. Það hefði kannski verið hálftíma seinna að vinna sig af stað, en varla mikið meira,“ segir hann, en eldgosið var öflugt strax frá byrjun.

Þegar gaus í Grímsvötnum árið 2004 bræddi gosið sig í gegnum ísinn á innan við klukkutíma. Árið 1998 fór gosið svo að segja beint í gegn. „Þetta voru bara nokkrir tugir metra. Svo lengdist gossprungan þegar leið á daginn, sérstaklega vestanmegin. Þá lengdist hún vegna þess að þá var íshella sem hún var að bræða sig í gegnum,“ segir Magnús.

Erfitt að spá um tímalengd

Magnús Tumi segir erfitt að meta það hversu lengi gosið kunni að standa yfir. „Það eru einhverjir dagar eða vikur. En sem virkilega öflugt gos á ég ekki von á að það standi nema í fáa daga, miðað við fyrri gos, og að það verði ekki mikið öskufall frá því nema nokkra daga.“

Ennfremur kveðst Magnús Tumi ekki telja miklar líkur á því að hlaup muni eiga sér stað. „Þetta gos bræðir ekki mikinn ís og það er lítið í Grímsvötnum, þannig að ég ekki á von því að verði neitt hlaup sem heitið getur. Nema þetta breytist eitthvað.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert